143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:36]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvar hæstv. utanríkisráðherra, en ég er kannski litlu nær með þessi væntanlegu samskipti. Ég endurtek að ég dáist mjög að dugnaði Þjóðverja og treysti þeim vel. Hins vegar sem þingmaður tel ég rétt og skylt að ég verði upplýstur um það hvers lags samninga er verið að gera og hvers megi vænta ef þetta byggist einungis á persónu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, en ekki öðrum valdhöfum sem kynnu að vera kosnir þar í lýðræðislegri kosningu.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra að því vegna ferða forseta: Gera gestgjafar þessara landa sér grein fyrir því að forseti Íslands er, eins og segir í stjórnarskrá, ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum? — Ég hef lokið máli mínu.