144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

náttúrupassi.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að við höfum ekki verið að byggja á sérstökum tekjustofnum fyrir utan gistináttagjaldið til að standa straum af þeirri innviðauppbyggingu sem hefur átt sér stað. Ég nefndi frá síðasta ári dæmi um mörg hundruð milljóna fjárveitingu sem var ákveðin algerlega óháð því hvort búið væri að koma upp einhverju nýju tekjuöflunarkerfi. Við skulum ekki gleyma því að í tengslum við það sem náttúrupassanum, eða þeirri útfærslu sem þingið kemst að niðurstöðu um, er ætlað að fjármagna er bara horft til öryggis ferðamanna á tilteknum ferðamannastöðum og hugmynda um að reyna að dreifa ferðamönnum á fleiri staði um landið. Síðan er allt hitt. Stóra fjárfestingin til að taka við auknum fjölda ferðamanna á sér stað í einkageiranum með því að byggja upp betri hótelaðstöðu o.s.frv. Það er með fjölbreyttari valkostum í ferðamannaþjónustunni þar sem stóru fjárhæðirnar koma inn. Varðandi tölur um beinar eða óbeinar tekjur ríkisins af fjölgun ferðamanna hafa þær ekki verið teknar sérstaklega saman og mundu á endanum (Forseti hringir.) ekki vera annað en áætlun. En það er enginn skortur (Forseti hringir.) á stuðningi stjórnvalda við uppbyggingu þessarar starfsemi í landinu.