144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:23]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa afar þörfu og góðu umræðu. Það er ekki spurning að hér er mikill vilji til að koma til móts við veikar byggðir. Ég held að við þurfum líka að horfa svolítið út fyrir rammann og sjá þau tækifæri sem blasa við á hverjum stað fyrir sig. Víða er fiskurinn auðvitað undirstaðan í atvinnuuppbyggingunni en það eru fleiri tækifæri sem við eigum að horfa til. Ég hef verið sammála því að það verði skoðað þegar nýtt sjávarútvegsfrumvarp verður lagt fram að festa kvótann betur í byggðunum en það er auðvitað vandfundin leið til þess. Það er mikilvægt að reyna að ná sátt um hana engu að síður.

Hér hefur komið fram að við þurfum að stöðva fólksflóttann, við þurfum að jafna samkeppnisaðstöðu, við þurfum að tryggja að unga fólkið vilji áfram vera heima í dreifðum byggðum. Það er mjög mikilvægt og til þess þurfum við að hefja innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Við þurfum að ljósleiðaravæða byggðirnar, við þurfum að bæta samgöngurnar og víða þarf að tryggja þriggja fasa rafmagn, fjarkennslu og aðra slíka grundvallarþætti til að efla byggðirnar og halda unga fólkinu heima.

Það er líka mikilvægt að horfa til þess að nú hyggja mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu á frekari uppbyggingu á landsbyggðinni með alls lags þjónustukjarna. Trúlega mun fjölga bensínstöðvum og upplýsingamiðstöðvum og öðrum slíkum stöðvum enda er á þessu ári spáð 25% aukningu ferðamanna, að farþegar verði 1,3 milljónir. Það eru gríðarleg tækifæri landsbyggðarinnar sem felast í því og það eru tækifæri sem við eigum að grípa.