145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

brottvísun flóttamanna.

[10:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál tiltekinna einstaklinga. Eins og þingheimur veit höfum við nú breytt skipan mála, þannig að það sé endurtekið, á þann veg að ráðuneytið hefur ekki lengur með einstök mál að gera. Má svo sem segja að í þeim breytta veruleika sé ráðuneytið svolítið að fóta sig því að engu að síður hefur ráðuneytið stefnumarkandi hlutverk í málefnum útlendinga. Það skiptir auðvitað máli fyrir ráðuneytið hvernig á málum er haldið. Í ljósi þeirra mála sem upp hafa komið teljum við nauðsynlegt fyrir ráðuneytið að gera sér betur grein fyrir því hver staða þess er þegar um er að ræða mál af þeim toga sem hv. þingmaður nefnir hér, þegar um það er að ræða að ráðherra hefur ekki um þau upplýsingar í einstökum atriðum.

Ég veit hins vegar, eins og hv. þingmaður veit, að Útlendingastofnun tók þá ákvörðun í gærkvöldi að fresta því að senda þessa tilteknu aðila burt, eftir samskipti við lögmenn þeirra. Það eru þær upplýsingar sem ég hef og eru nú opinberar, að lögmennirnir hafi haft ákveðin sjónarmið uppi sem Útlendingastofnun taldi rétt að kanna nánar. Ég hygg að í einhverjum tilvikum hafi mál viðkomandi aðila verið send til úrskurðarnefndarinnar sem er hinn rétti úrskurðaraðili til að meta hvernig þessum málum er háttað. Mér finnst það standa upp úr í þessu að við erum í þeim miklu breytingum sem hafa orðið í útlendingamálum enn dálítið að fóta okkur í því hvernig við eigum að halda utan um eftirfylgni með þessum tilteknu málum. Ráðuneytið hefur í kjölfar þeirra mála sem upp hafa komið undanfarið verið að glöggva sig betur á því verklagi sem viðhaft hefur verið árum saman, hvort hægt sé að gera það betra.

Ég hygg að það sé alltaf ráðrúm til að gera betur. Á næstunni munu í ráðuneytinu sjást þess merki hvaða skref verða tekin í þessu efni.