145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

íþróttakennaranám á Laugarvatni.

[10:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vil segja í upphafi að ég hef ekki með neinum hætti beitt mér eða reynt að hafa áhrif á dagskrá háskólaráðsfunda, hvað þar er tekið fyrir eða hvenær. Ég tel reyndar að það væri ekki við hæfi að menntamálaráðherra, hvorki ég né nokkur annar, gerði það. Ég get haft mínar skoðanir á ýmsu sem háskólinn gerir en ég á ekki að hlutast til um dagskrá háskólaráðsins eða innri málefni skólans. Háskólinn nýtur mikils sjálfstæðis, það er varið með lögum, og hann þarf að taka ákvarðanir um sín innri málefni og bera ábyrgð á þeim. Reyndar hafði mér skilist að þessu máli hefði verið frestað nú þegar, frestað um einhverjar vikur að taka endanlega ákvörðun, en hv. þingmaður bendir á að málið sé til fyrirtöku í ráðinu í dag.

Hvað varðar rök háskólans og réttlætingu ætla ég ekki að leggja dóm á það. Ég held þó að allir séu sammála um að háskólinn hafi veigamikið hlutverk fyrir þjóðina alla, bæði höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Háskólinn er með ýmsa starfsemi sem nýtist um land allt, má alveg örugglega bæta við, og ég veit að háskólinn hefur metnað til að gera þetta sem best. Háskólinn verður þó að hafa svigrúm til að taka sínar ákvarðanir á sínum forsendum. Ég held að það gangi ekki að menntamálaráðherra beiti sér þar en það er alveg sjálfsagt og eðlilegt að hv. þingmenn bæði hafi skoðun á málinu og beiti sér. Það er alveg eðlilegt en hvað varðar ráðherra þarf auðvitað allt að vera innan marka laga.