145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 188/2015 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

432. mál
[13:38]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015 um breytingu á XIII. viðauka (flutningastarfsemi) við EES-samninginn. Álitið kemur frá hv. utanríkismálanefnd.

Til þess að skýra það aðeins nánar strax hér í upphafi þá fjallar þessi tilskipun um breytingu á tilskipun sem varðar mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotunum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalheiði I. Þorsteinsdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015, frá 10. júlí 2015, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 um breytingu á tilskipun 2005/35/EB sem, eins og ég sagði áður, er um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.

Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 10. janúar 2016. Framsetning tillögunnar telst að mati hv. utanríkismálanefndar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipun 2005/35/EB var tekin upp í EES-samninginn 2009. Sú breyting sem tilskipun 2009/123/EB felur í sér er að lögð sé frekari áhersla á að gera brot gegn reglum um mengun hafs frá skipum refsiverð samkvæmt hegningar- eða sérrefsilögum. Refsiábyrgðin getur tekið jafnt til einstaklinga og lögaðila og skilyrði slíkrar ábyrgðar eru almenn saknæmisskilyrði, ásetningur eða stórfellt gáleysi ásamt því að verknaður rýri vatnsgæði. Ekki er gert ráð fyrir að refsað sé fyrir smávægileg brot sem rýra þá ekki vatnsgæði en þó þannig að ítrekuð brot leiði til refsiábyrgðar.

Tilskipunin felur ekki í sér skilyrði um beitingu og lögsaga hennar er háð löggjöf hvers ríkis um sig. Tilskipunin kveður þannig einungis á um hvers konar umhverfisbrot skuli talin refsiverð, hverjir skuli bera refsiábyrgð og hvers konar þátttaka í brotum skuli talin refsiverð.

Refsilöggjöf er annars ekki hluti af EES-samningnum en þar sem gerðin er breyting á tilskipun 2005/35/EB, sem þegar hefur verið tekin upp í EES-samninginn, og markmið tilskipunarinnar er að samræma refsiákvæði við brotum gegn þeirri löggjöf, var gerð aðlögun við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn þar sem því var meðal annars lýst yfir að upptaka gerðarinnar hefði ekki fordæmisgildi hvað varðar aðra löggjöf sem innihéldi refsiákvæði.

Innleiðing á þessari tilskipun kallar á breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda. En það þarf að meta hvort gera þurfi breytingar á samstarfi umhverfisyfirvalda, lögreglu og ákæruvalds þegar um refsiverð umhverfisbrot er að ræða. En það mun einnig þurfa aukna fjárveitingu til lögreglu til að mögulegt sé að rannsaka þau brot sem tilkynnt er um í samræmi við markmið tilskipunarinnar.

Hv. utanríkismálanefnd leggur til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.

Hv. þingmenn Elín Hirst og Karl Garðarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en annars stendur utanríkismálanefnd á bak við þessa tillögu, þ.e. sú sem hér stendur, hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður, Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.