146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hvað eiga þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun og Harry Potter og fanginn frá Azkaban sameiginlegt? Jú, bæði eru u.þ.b. 360 blaðsíður og eru ævintýri. Gagnrýni fjármálaráðs snýr nákvæmlega að því, sem ég held að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hafi reifað hér í mjög mörgum orðum, að öll þessi fögru fyrirheit sem hv. þm. Óli Björn Kárason talaði hér fyrir byggjast ekki á neinu. Þetta eru ævintýri. Ég get alveg sagt að það verði hagvöxtur næstu 30 árin en ég hef ekkert fyrir mér í því af því að ég er ekki með neinar tölur á bak við mig. Þetta er vandamálið, þess vegna ber að fella þessa fjármálaáætlun, einfaldlega vegna þess að við erum að byggja hana á lofti. Á sandi byggði heimskur maður hús og ég er svolítið hrædd um að við séum að byggja á sandi. Við erum ekki að byggja á steini.