149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:23]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar fiskeldisfrumvarp um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.). Þetta er breyting á lögum nr. 71/2008, með síðari breytingum.

Þar sem við í atvinnuveganefnd erum nýkomin frá Noregi verður þessi ræða mín hugleiðingar eftir þá ferð.

Vegna þess andrúmslofts sem ríkir í umræðunni um fiskeldismál hér heima langar mig til að tæpa á nokkrum atriðum. Umræðan er oftast svart/hvít. Þar spila gjarnan inn í fordómar og ótti sem oft eru afleiðingar lélegra upplýsinga. Ég vil þó taka fram að það skiptir afar miklu máli að við vöndum til verka. Norskir fiskeldismenn segja að reynslan hafi kennt þeim að upplýsingar til samfélagsins séu nauðsynlegar og stuðli að því að starfsemi fiskeldisins verði í mun betri sátt við samfélagið fyrir vikið. Slíkt fyrirkomulag þurfum við að innleiða á Íslandi. Það er mitt mat. Áhættumat og burðarþolsmat eru samofin á ýmsan hátt. Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu er áhættumatið að flestra mati, eins og það er útfært, stærsti ásteytingarsteinninn, sérstaklega það að Hafró skuli að sumu leyti sitja beggja vegna borðsins.

Fram kemur í frumvarpinu að Hafró skuli leggja til leyfilegt eldismat, en stjórnvöld muni þó taka ákvörðun á grundvelli ráðgjafar. Það er rétt leið. Áhættumat sem slíkt er aðferðafræði sem þróa þarf betur og þarf að vera í stöðugri þróun. Það má samt ekki gerast að áhættumat sé það ófullkomið í upphafi að síðari rannsóknir kippi fótunum undan rekstri fyrirtækja eða að öll fyrirtæki á ákveðnu svæði séu alltaf seld undir sama hattinn. Hér á ég við að fyrirtæki sem standa sig vel í umhverfismálum verði ekki látin gjalda fyrir mistök annarra. Hafró mun að öllum líkindum hafa heimild til að minnka framleiðslu á svæði, allt eins og um skynsamleg skref væri að ræða hjá Hafró og það legði til mótvægisaðgerðir. Forsendur og breytur í áhættumati þurfa alltaf að vera vel rökstuddar og standast alla vísindalega skoðun. Það er óeðlilegt að Hafró fari á sama tíma með vísindalega ráðgjöf og stjórnsýsluvald. Sú ráðstöfun að sama stofnunin sitji beggja megin borðsins býður þeirri hættu heim að hefta faglega vinnu vísindamanna. Vísindahliðina og valdið ber að aðskilja. Ábyrgðin skal alltaf vera stjórnmálamannanna.

Umræðan um erfðablöndun eldisfiska við villta stofna hefur verið töluverð. Við verðum að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því að eldi á ófrjóum laxi er enn á tilraunastigi. Það þarf einnig að skilgreina hvaða laxastofnar eru villtir og hverjir eru það ekki. Hvar á að draga línuna? Í mörgum ám, bæði í Noregi og á Íslandi, hefur seiðum verið sleppt í gegnum árin. Sumar ár sem eru með lax í dag voru fisklausar áður. Þessar ár hafa verið ræktaðar upp með seiðasleppingum.

Mig langar til að nefna að hafbeitarlax var nokkuð áberandi á meðan hafbeit var stunduð, en hann sést ekki í dag. Hvað varð um fiskinn sem skilaði sér ekki þegar hafbeitarfiskeldið var og hét? Hér þurfum við að mínu mati að skoða hlutina af yfirvegun og ná samræðu á milli manna sem eru með eða á móti. 50 ára reynsla af fiskeldi í Noregi þýðir ekki að Norðmenn séu komnir fyrir vind á allan hátt. Nýjar áskoranir eru alltaf að koma upp og munu gera það í framtíðinni. Þetta frumvarp, verði það að lögum, á að vera lifandi plagg. Við verðum að endurskoða það ef þurfa þykir. Það þarf að endurskoða áhættumatið reglulega og nýta þann samráðsvettvang sem lagður er til í frumvarpinu.

Miðað við núverandi forsendur er erfðablöndun innbyggð í áhættumat Hafró. Það er vegna þess að í matinu er reiknað með að fylgst verði með hvort erfðablöndun eigi sér stað og þegar óskilgreind erfðablöndun er staðfest muni Hafrannsóknastofnun minnka framleiðsluheimildir fyrirtækjanna til að draga úr mögulegri erfðablöndun. Hvergi er minnst á aðgerðir til að fyrirbyggja, grípa inn í og/eða koma í veg fyrir að möguleg erfðablöndun geti átt sér stað. Hér er um að ræða grundvallarhugsanaskekkju í þeirri nálgun sem felst í áhættumati Hafró. Við megum alls ekki festa eitthvað í sessi sem ekki er hægt að breyta ef þurfa þykir.

Áhyggjur veiðiréttarhafa hér á landi eru vel skiljanlegar. Þeirra hagsmunir eru miklir. Margir þeirra, þar á meðal bændur sem hafa umtalsverðar tekjur af veiðihlunnindum, verða að fá að hafa rödd. Við viljum að sjálfsögðu ekki valda þeim skaða. Ég tel þó rétt að benda á til hvaða aðgerða Norðmenn hafa gripið. Vöktun og talning fiska sem ganga í ár í Noregi er viðurkennd aðferð stjórnvalda þar til að fylgjast með hvort eldisfiskur hafi gengið í ár. Kafarar sjá um að fanga fiska sem grunur er um að séu eldisfiskar eða sýktir. Myndavélar eru notaðar til að fylgjast með og er þeim komið fyrir í flestum ám. Ljósastýringar eru í mikilli þróun, en sú tækni mun alveg örugglega verða öflugri og hjálpa mikið ef eldisfiskur finnst í viðkomandi ám.

Þegar borin er saman reynsla mismunandi þjóða af eldi verðum við að bera saman staði sem eru með aðstæður sem svipar til okkar aðstæðna. Umhverfi eldisaðila í Norður-Noregi og á Íslandi er mun líklegra til samanburðar en umhverfið í Suður-Noregi. Þar spilar inn í landslag en ekki síst hitastig sjávar sem er kaldara norðar líkt og hérlendis. Hitastig sjávar hefur til að mynda mikil áhrif á viðkomu laxalúsar, en hún er mun meira vandamál í Suður-Noregi vegna hlýrri sjávar. Margar aðferðir eru notaðar til við að glíma við laxalús, m.a. lífrænar varnir, lyf, sem eru þó á undanhaldi.

Reynsla Norðmanna af landeldi er ekki mikil og ber að leiðrétta sögusagnir og fullyrðingar þar um. Landeldi er ekki í miklum vexti, eins og margir segja hér, búnaður til landeldis er bæði dýr og þróunin er skammt á veg komin. Sem dæmi hafa sprungið ker sem valdið hafa bæði fjárhagslegu tjóni og slysum á mönnum og jafnvel dauðsföllum. Lokaðar kvíar eru í örri þróun, en eins og staðan er í dag eru ekki framleiddar lokaðar kvíar sem þola mikla ölduhæð. Sú tækni er því ekki orðin nothæf, en þróunin er hins vegar ör. Hér heima er talað um að slíkar kvíar þoli einungis 1,5 m ölduhæð.

Varðandi umfang fiskeldis hér á landi á magn eldisfisks eftir að koma í ljós. Til samanburðar stefna Norðmenn í 5 milljónir tonna í laxeldi fyrir árið 2050. Það er umhugsunarefni sem segir manni að Norðmenn eru mjög framarlega í fiskeldismálum eftir þá 50 ára reynslu sem þeir hafa að baki.

Við verðum að sjálfsögðu að tryggja að ef tjón verður af fiskeldi verði það bætt, hvort sem það er mengunartjón eða annað umhverfistjón. Það verður þó alltaf að gilda á báða vegu. Við verðum að koma fram af sanngirni við þá sem eru í eldi. Það má ekki kippa undan þeim rekstri bótalaust. Tryggingamál fiskeldis þurfa að vera í lagi fyrir meiri háttar tjón, hvort sem um er að ræða tryggingar af mannvirkjum eða búnaði.

Ég vil í lokin sérstaklega taka fram að við eigum að vera í fremstu röð varðandi heilnæmi eldisfisks. Við eigum að fara að öllu með gát og ná sem mestri sátt milli aðila, þeirra fjölmörgu hagsmunaaðila sem hlut eiga að máli. Til gamans má geta þess að eitt af því sem við fengum að sjá í sambandi við þróun sjókvíaelda er að nú eru Norðmenn að þróa eldi sem er úti í sjó, úti á reginhafi, eða það er alla vega á teikniborðinu. Það eldi er í svipaðri umgjörð og olíuborpallar sem þola að vera úti í hafsauga. Þá erum við náttúrlega farin að tala um allt annan grundvöll mengunarhættu.

Varðandi umræðuna um gjaldtöku hef ég þá skoðun að það sé annað mál á öðrum vettvangi með sérfrumvarpi, samanber veiðigjaldafrumvarp í sjávarútvegi. Gjaldtökumálum er ekki fulllandað, eins og ég skildi þá í Noregi. Norðmenn eru meira að tala um gjöld af leyfisveitingum og öðru slíku, en ég er reyndar ekki alveg með það á hreinu.

Þetta var mjög fróðleg ferð og upplýsandi og við komum ríkari af þeim upplýsingum hingað heim og þurfum að vanda okkur í þessari vinnu. Þarna eru mikil verðmæti. Þetta er líka viss ógn við náttúruna sem við þurfum að mæta og við þurfum að hlusta á alla aðila sem um þetta fjalla, eins og ég sagði áðan. Ég held að við séum bærari til þess eftir þessa ferð en áður en við fórum.