149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[18:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður nefndi að gert væri ráð fyrir auknu fé til þessara eftirlitsaðila. Það vekur upp þá spurningu þegar við tölum um fjöldamargar tegundir af stjórnvaldssektum og eftirliti hægri/vinstri, hvort ekki þurfi, m.a. í ljósi nýlegrar reynslu, að ganga úr skugga um að umræddar stofnanir hafi þann innri styrk sem þarf til þess að geta framið eðlilega stjórnsýslu.

Reyndin er sú, herra forseti, að sú er ekki alltaf raunin.

Eins og ég gat um rétt í þessu eru nánast átakanleg dæmi hér, m.a. hjá aðilum sem ekki búa við tiltakanlegan fjárskort í starfsemi sinni. En meginatriðið er að fela aðilum eftirlit með ýmiss konar heimildum til að grípa til íþyngjandi aðgerða gagnvart fyrirtækjum, sem auðvitað er nauðsynlegt, en að það sé þá tryggt að þeir aðilar sem fengið hafi slík verkefni hafi burði til að rækja þau.