150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:00]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að þakka fyrir að áhyggjur okkar Pírata voru teknar alvarlega, að brugðist var við þeim og tekið fyrir þá fortakslausu heimild sem veita átti ráðherra til að víkja frá sveitarstjórnarlögum. Mér finnst mjög mikilvægt að þakka fyrir það og þakka fyrir þá góðu vinnu sem átti sér stað í umhverfis- og samgöngunefnd.

Auðvitað er frábært framfaraskref að nú geti þingnefndir og sveitarstjórnir farið að vinna með fjarfundi í auknum mæli. Við fögnum því líka í leiðinni.

Ég þakka sérstaklega fyrir að hlustað hafi verið á áhyggjur okkar og brugðist við þeim. Það er mjög mikilvægt að við tölum vel saman og að við hlustum á hvert annað um þessar mundir.