151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við að hafa haldið þessu fram. Auðvitað er það bara mjög gott og ágætt … (Gripið fram í.) — Ég kannast ekki við að hafa haldið því fram að það sem skattrannsóknarstjóri segir í sinni umsögn, um að ávinningur sé af samvinnu embættanna, sé rangt. Og auðvitað má auka samvinnu á milli embættanna án þess að sameina stofnanirnar og það má fara ýmsar leiðir í þeim efnum. En ef við ætlum að efla skattrannsóknir þá eigum við að gefa skattrannsóknarstjóra aukin verkfæri, ákæruvald og jafnvel fleiri verkefni, og horfa til Svíþjóðar hvað þetta varðar. Í Svíþjóð er skattrannsóknarstjóri ekki með ákæruvald en náin samvinna er á milli héraðssaksóknara og skattrannsókna þar. Til vara myndi ég vilja að við myndum herma eftir Svíum og líta til landa eins og Finnlands sem er aftarlega á merinni hvað þetta varðar og enn frekar ættum við að horfa til Þýskalands sem leggur mikið upp úr skattrannsóknum og tekur harkalega á þeim málum. En hér á Íslandi, í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, ætlum við að fara að stíga skref til að milda refsingar og draga tennur, sem ég held að sé augljóst, úr skattrannsóknum á Íslandi. Það finnst mér mikið óráð, forseti, og vil að þessu frumvarpi verði vísað til föðurhúsanna.