151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé bara gott fyrir umræðuna að fá fram þau sjónarmið sem við höfum fengið sem snúa að þessum þætti málsins. Málið í grunninn og stóra myndin af málinu er að skoða hvað nágrannalöndin, sem eru komin miklu lengra en við, hafa gert. Örfá ríki í Evrópu gera þetta með svipuðum hætti og við. Öll Norður-Evrópa setti löggjöf til að tryggja þessa innviði fyrir 20, 30, 40, 50 árum síðan, þ.e. hvert sem litið er, ef við lítum til hinna Norðurlandanna, Bretlands, Hollands og hvað við teljum upp. Við erum þá að reyna að skoða myndina heildrænt. Þetta er bara smá brot af því máli í sjálfu sér. Sjálfur hef ég talað fyrir því að við sem sitjum hér hljótum að líta til þess að við setjum þá löggjöf sem tryggir helstu öryggishagsmuni þegna samfélagsins þannig að einstök sveitarfélög geti ekki farið gegn þeim hagsmunum. Það er sú sýn sem ég hef haft á þetta.

Hvernig getum við líkt saman hálendisþjóðgarði og helstu þjóðaröryggishagsmunum landsins? Ég skil ekki þá umræðu hér í kvöld. Eigum við að treysta einstökum sveitarfélögum fyrir þjóðaröryggishagsmunum okkar í stóru myndinni? Erum við ekki að reyna að setja löggjöf um netöryggismál? Eru við ekki að reyna að styrkja raforkukerfið þannig að það sé hér sem við ákveðum hvernig við stöndum að þeim málum? Er það ekki í raun það sem hæstv. samgönguráðherra setur fram í frumvarpi sínu um loftferðir; að tryggja grunnöryggishagsmuni sem snúa að þessum málum? Svo er bara fínt ef það sem hv. þingmaður kom inn á hér í kvöld er stefna Pírata í þessum málum.