152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

endurgreiðslur vegna búsetuskerðinga.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin en ég trúi ekki mínum eigin eyrum. Ég trúi því ekki. Ég get ekki trúað því að við ætlum virkilega — hvað er ríkissjóður að segja? Á hann ekki fyrir þessu? Er þetta of dýrt? Er þetta of kostnaðarsamt? Þetta er verst setta fólkið á Íslandi sem er verið að ræna í 13 ár. Og þá segir ríkissjóður: Nei, heyrðu, við borgum bara fjögur ár. Förum í fyrningu. Það er verið að borga sanngirnisbætur langt aftur í tímann vegna illrar meðferðar á fólki. Þetta eru sanngirnisgreiðslur og ég mun aldrei trúa því að ríkissjóður og þessi ríkisstjórn ætli að leggjast svo lágt að borga ekki þessu fólki að fullu. Þetta eru ekki stórar upphæðir. Þetta er kannski álíka og hvað? Salan á Íslandsbanka. Kannski tvöfalt það, 2–3 milljarðar, ég veit ekki hversu mikið þetta er. En ef ríkissjóður telur sig þurfa á þessu að halda frá þessu fólki, verst setta fólkinu í landinu, að þetta séu breiðustu bökin — ég trúi því ekki.