152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

aðbúnaður flóttamanna í Grikklandi.

[15:39]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Ég er í ágætum samskiptum við félagasamtök, þar með talið Rauða krossinn. Ég hef ekki heyrt frá þeim að það sé falleinkunn að bjóða sérstökum hópum frá Afganistan hingað til lands eða sérstökum hópum frá Úkraínu sem ég nefndi hérna í máli mínu hér á undan. Ég ætla ekki að mæla gegn því að aðstæður í Grikklandi séu slæmar. Það mun ég ekki gera. Þarf að athuga aðstæður þeirra sem núna stendur til að senda í burtu? Það kann vel að vera að þess þurfi en við megum samt ekki gleyma því að við verðum að hafa einhverjar reglur og þetta fólk hefur farið í gegnum þær reglur og þetta var niðurstaðan. En hvort það sé eitthvað í þessum málum sem þyrfti að skoða betur — ég ætla ekki að útiloka það. Málið er hins vegar á forræði dómsmálaráðherra og ég vísa öllum frekari fyrirspurnum um það til hans.