152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

Hallormsstaðaskóli.

[15:45]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að ég held að við séum öll að verða svolítið meðvituð um það að stærstu áskoranir okkar tíma eru umhverfis- og loftslagsmálin og matvælaöryggið þannig að sjálfbær hugsun og þróun og menntun á þessu sviði er gríðarlega mikilvæg. Þarna hefur Hallormsstaðaskóli mikla sérstöðu. Það er vert að benda á það að þessi leið, ein af nokkrum sem hæstv. ráðherra nefnir, með samstarf við aðra skóla, er ágæt en ég held að það tefji vöxt og þroska Hallormsstaðaskóla. Þegar þú ert í samstarfi er bara greitt með hverjum nemanda og það eru ekkert allir skólar tilbúnir til að deila sínum nemendum annað þannig að oft verður ákveðin togstreita um slíkt samstarf. (Forseti hringir.) Ég held að skólinn stefni lengra og mig langar (Forseti hringir.) því að spyrja að lokum: Ætlar ráðherrann að beita sér fyrir bættum kjörum skólans og koma honum upp á háskólastig?