Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[20:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að hafa eitthvert fast verklag varðandi það hvernig við bregðumst við handvömm í samráðsferlinu af því tagi sem hér er um að ræða. Þess er skemmst að minnast þegar hæstv. heilbrigðisráðherra varð þess áskynja að samráð við samtök sjúklinga, þegar kom að frumvarpi um beitingu nauðungar í heilbrigðiskerfinu, hafði ekki verið ásættanlegt; hann tók þá ákvörðun að draga það mál til baka. Hér hefur ráðuneytið gengið svo langt að hunsa algerlega umsögn frá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi. Þetta eru samtök sem berjast einna mest fyrir því að eðlileg skil séu dregin á milli hins trúarlega og hins veraldlega í samfélaginu. Þetta frumvarp snertir akkúrat á því. Þess vegna hefði verið svo upplagt að ráðuneytið tæki tillit til þessarar umsagnar, læsa hana í það minnsta, sem það gerði ekki einu sinni, og hefði á einhvern hátt brugðist við henni. Ég minni bara aftur á að hæstv. heilbrigðisráðherra brást við sömu aðstæðum hér fyrr í vetur með því að draga frumvarp til baka.

Í umsögn Siðmenntar er t.d. bent á annað atriði sem mér þykir skipta nokkuð miklu máli sem varðar fjárhagslegan og stjórnunarlegan aðskilnað kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og bálstofu vegna þess að rekstur bálstofu er ekki lögboðið hlutverk kirkjugarðanna. Rekstur bálstofu er það sem ég myndi kalla grunnþjónusta í samfélagi þar sem fólk deyr og vill láta brenna sig og í dag er rekin ein bálstofa. Hún er komin á tíma. Hana þarf að endurnýja og ráðherra stendur frammi fyrir því hvort hann vilji sökkva peningum í það að leyfa hinum trúarlegu kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmis að halda áfram rekstri og fá til þess pening frá hinu opinbera eða hlusta á Tré lífsins og veita þeim einhvers konar stuðning til reksturs bálstofu sem stendur öllum opin.