Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[20:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég byrja kannski á því að bregðast við því sem hæstv. ráðherra sagði í sínu síðara andsvari rétt áðan, að engri umsögn hafi verið stungið undir stól. En ja, það blasir bara við við lestur greinargerðarinnar að sú var einmitt raunin. Hér stendur að alls hafi borist 130 umsagnir, þar af 128 frá einstaklingum en tvær frá Tré lífsins og Bálfarafélagi Íslands — 128 frá einstaklingum og tvær frá félögum. Hér er ég með umsögn sem ég prentaði út af samráðsvefnum frá þriðja félaginu sem ekki er minnst á í þessari greinargerð. Þetta heitir að stinga undir stól. Þetta er eiginlega verra vegna þess að af lestri greinargerðarinnar að dæma hefur ráðuneytið ekki einu sinni áttað sig á því að þessi umsögn hafi borist. Það hefur verið skrunað svo hratt í gegnum þessar 130 umsagnir að ráðuneytisstarfsfólkið sá ekki einu sinni að það væri hér umsögn frá Siðmennt sem hefur nú sitthvað um þetta frumvarp og þennan lagabálk allan að segja. Þetta eru vinnubrögð sem ég hefði vonast til að sjá ekki frá ráðuneytinu, ráðuneytinu sem í nýlegum forsetaúrskurði fékk í hendur það verkefni að tryggja gæði lagasetningar. Ráðuneytið sem fer með eftirlit með gæðum lagasetningar á Íslandi kann ekki einu sinni að lesa úr umsagnalista sem berst í samráðsgáttina við eigið frumvarp. Þetta er alvarlegt mál, frú forseti, og engin ástæða fyrir ráðherra að gera lítið úr því með því að segja að engu hafi verið sópað undir stól þegar umsögn Siðmenntar var sópað undir stól. En hvað um það.

Þar sem ekki var tekið tillit til umsagnar Siðmenntar og hún ekki einu sinni lesin þá langar mig að gera örstutt grein fyrir því sem þar kemur fram af því að þar eru jú eru sjónarmið sem ég held að við getum mörg tekið undir sem viljum skýrari mörk á milli reksturs trúfélaga og reksturs þeirra hluta samfélagsins sem þurfa að standa öllum opnir óháð trú, vegna þess að greftrun og líkbrennsla eru eitt af því. Við deyjum öll sama hvað við trúum á og óskir fólks um það hvar það hvílir skipta máli. Í dag er staðan sú að vilji fólk láta brenna sig eftir dauðann er einn valkostur í boði og hann er rekinn af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma. Það segir sig eiginlega sjálft með nafninu að þetta er ekki félag allra Íslendinga. Þetta er félag sem er rekið á forsendum eins trúfélags og meira að segja er það svo að Tré lífsins, sem hér hefur verið vikið að í tengslum við umsagnir, sem vill reka óháð athafnarými og bálstofu, nýtur líka stuðnings kristinna trúfélaga sem ekki eru þjóðkirkjan á Íslandi. Ef ég man rétt þá eru einhverjar fríkirkjur búnir að lýsa því yfir að þær styðji það skref að rekstur bálstofu verði í höndum þess einkaaðila, eða þess lags einkaaðila í það minnsta, sem geti betur tryggt aðgengi allra að líkbrennsluþjónustu.

En að umsögn Siðmenntar. Siðmennt tekur undir það markmið ráðuneytisins að eðlilegt sé að færa reikningshald Kirkjugarðasjóðs út úr skrifstofu biskups, það sé eiginlega bara „selvfølgelighed“, en bendir síðan á að þeim þyki mjög óeðlilegt að á sama tíma fari fulltrúar biskupsstofu með formennsku í kirkjugarðaráðinu sem fer með, samkvæmt þessu frumvarpi, reikningshald sjóðsins. Þannig að það er nú dálítið verið að færa þennan sjóð úr einum vasa í annan. Eins og segir í umsögn Siðmenntar þá ætti slíkt verkefni eigi að vera á borði óháðs ráðs en ekki undir forystu fulltrúa eins lífsskoðunarfélags vegna þess að þetta fyrirkomulag endurspeglar einfaldlega Ísland gærdagsins, land þar sem trúfélagaaðild var miklum mun einsleitari en hún er í dag og land þar sem við þurfum að láta reglur taka breytingum í takt við breytta þjóðfélagsskipan og endurspegla þær breytingar sem almennt hafa orðið á trúar- og lífsskoðunarmálum þjóðarinnar.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni og ég lýsi ánægju með að heyra ráðherra tala um þá vinnu sem er í gangi uppi í dómsmálaráðuneyti um það hvað tekur við varðandi rekstur bálstofu þegar rekstur bálstofunnar í Fossvogi rennur sitt skeið á enda, en ef ég man rétt þá er hún bara nokkrum vikum frekar en mánuðum frá því að missa undanþágu á starfsleyfi vegna mengunar, þetta er búnaður sem er komið til ára sinna og kominn tími til að endurnýja. Þá stendur ráðuneytið frammi fyrir spurningunni um á hvaða forsendum á að endurnýja, sérstaklega í ljósi þeirrar þröngu stöðu sem fámenni á Íslandi setur okkur í. Ég er t.d. sammála hæstv. ráðherra um að það sé mikilvægt að fólk njóti eins mikils jafnræðis varðandi aðgengi að þjónustunni og unnt er óháð búsetu. Þó að við séum ekki að tala um einhverja farandbálstofu þá væri kannski hægt að létta undir með fólki varðandi flutning á jarðneskum leifum utan af landi til bálstofunnar og frá henni, hvar sem hún er staðsett. En nú eru tveir ólíkir aðilar búnir að lýsa áhuga sínum á því að reka bálstofu. Þá þurfum að spyrja okkur: Er Ísland samfélag sem stendur undir rekstri tveggja jafn sérhæfðra bálstofa og nútímaumhverfiskröfur kalla á? Síðan þarf ráðuneytið að skoða hvor aðilinn sé betur til þess fallinn að bjóða þjónustuna þannig að hún standi öllum til boða, ekki bara óháð búsetu heldur óháð trúarskoðunum og lífsskoðunum. (Dómsmrh.: Eða einhver allt annar.) — Ja, eða bara einhver allt annar, segir ráðherrann hér. Jú, fleiri gætu svo sem haft áhuga á slíkum rekstri en þetta eru þau tvö nöfn sem poppa upp í kringum þetta mál. Það verður kannski bara slegist um þetta þegar ráðherrann fer að velta öllum steinum við varðandi líkbrennslumál Íslendinga til framtíðar.

En síðan bendir Siðmennt á tvö atriði í viðbót í hinni hunsuðu umsögn sem mig langar að nefna. Í fyrsta lagi leggur Siðmennt til eða óskar eftir því við dómsmálaráðherra að hann leggi fram tilmæli til stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma … Nei, ég var byrjaður að segja þetta. Ég átti eftir að slá botninn í þetta; að með því að lágmarkskrafa til þeirra sem reka bálstofu í dag hljóti að vera til þess einmitt að endurspegla breytta þjóðfélagshætti verði rekstur bálstofunnar skilinn frá rekstri grafreita og því sem hefur trúarlegri blæ vegna þess að rekstur bálstofu sé einhvers konar grunnþjónusta og eigi þess vegna ekki að vera á forsendum trúfélagsins sem rekur Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Lokaatriðið sem Siðmennt bendir á, sem mér finnst ágæt ábending, er að leggja til við dómsmálaráðherra að hætta að nota orðið kirkjugarður, að fara bara að nota orðið grafreit í öllum lögum og reglugerðum er varða slíka staði.

Þetta voru nokkur orð um umsögn Siðmenntar. Nú er tíminn eitthvað farinn að styttast hjá mér en af því að ég hef nú um nokkurra ára skeið haft dálítinn áhuga á sérstaklega bálförum og því hvernig þeim jarðneskum leifum er fyrir komið langar mig að rifja upp fyrirspurn sem ég lagði fram á 149. þingi, þar sem kom fram hversu mikið — og sú þróun hefur haldið áfram. Þetta er náttúrlega tölur frá 2017–2018, þær nýjustu, sem sýna hvernig bálfarir verða aukinn hluti af þeim útförum sem fram fara á hverju ári. En það sem vakti athygli mína sérstaklega í þessu svari var hversu hratt umsóknum um öskudreifingu utan kirkjugarða hefði fjölgað síðustu fimm árin áður en fyrirspurnin var lögð fram. Þær tvöfölduðust rúmlega á því tímabili. Það kom fram í svarinu að af þeim umsóknum, sem voru 150 talsins, eða þar um bil minnir mig, hafi rúmlega 50 verið frá erlendum ríkisborgurum sem ekki voru búsettir á Íslandi. Þetta varð á sínum tíma til þess að við ræddum sum hversu forspár Andri Snær Magnason hefði verið í bókinni Lovestar þar sem öskudreifing varð að stóriðnaði á Íslandi. Af þessum tölum að dæma virðist vera einhver eftirspurn hjá erlendum einstaklingum um að verða varanlegur hluti af íslenskri náttúru eftir dauðann. Ég veit það ekki, mér finnst það dálítið krúttlegt; að einhver hafi séð Ísland kannski í einhverjum sjónvarpsþætti og skrifað í erfðaskrána sína að lögfræðingurinn skuli hafa samband við eitthvert fólk á Tröllaskaga og sjá til þess að jarðneskum leifum verði dreift yfir fjöllin þar í kring.

Þar með erum við komin að frumvarpi hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um dreifingu ösku sem hún hefur lagt fram þrisvar, nú síðast á yfirstandandi þingi, sem er eitt af þessum frumvörpum sem varpa svo skýru ljósi á það hvað þessi lagaumgjörð er mikið barn síns tíma og úr sér gengin. Við erum í þeirri stöðu í dag að það má dreifa ösku utan kirkjugarða yfir öræfi eða sjó. Sjó held ég að við eigum nú ágætlega skilgreindan en öræfi eru t.d. hvergi skilgreind í lagasafninu, þannig að þarna þarf einhver starfsmaður sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra að slumpa á það hvort einhverjir staðir teljist nógu mikil öræfi til að uppfylla skilyrði laganna sem gefa enga leiðbeiningu um það hvað í þessu ákvæði felst. Ákvæðið sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir leggur til varðandi aukið frjálsræði í dreifingu ösku yrði til mikilla bóta en það minnir okkur líka á, eins og bent er á í umsögn Siðmenntar, að lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu eru frá 1993, þau eru komin til ára sinna. Kannski hafa þau verið dálítið gamaldags á sínum tíma, jafnvel, en samfélagið hefur bara tekist svo stórstígum breytingum á þeim 30 árum sem liðin eru að það er kominn tími á miklu meiri lagfæringar á þeim en felast í því frumvarpi sem hæstv. ráðherra leggur hér fram.