Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[20:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisyfirferð yfir þetta mál sem lætur ekki mikið yfir sér en er býsna áhugavert, ekki síst í ljósi þess hvaðan ráðherra málaflokksins kemur, úr hvaða flokki. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann meti það sem svo að þetta frumvarp vegi að einhverju leyti gegn einkaframtakinu í þessum málum. Það er ákveðið félag hér á landi sem heitir Tré lífsins sem hefur undanfarinn hálfan áratug eða rúmlega það undirbúið rekstur og byggingu bálstofu hér á landi og margsinnis gengið á fund ráðuneytis málaflokksins, verið með erindi þar og farið í stórtæka undirbúningsvinnu við rekstur og við að reisa nýja bálstofu. Bálfarafélag Íslands hefur gengið í endurnýjun lífdaga og því má ætla að 1. gr. frumvarpsins ætti í rauninni einnig að falla dauð niður af þeim sökum. Þannig að ég er aðeins að velta fyrir mér hvernig þingmaðurinn lítur á þær aðgerðir sem verið er að gera í þessu frumvarpi, hvort þarna sé beinlínis verið að bregða fæti fyrir þetta mikilvæga einkaframtak.