Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[20:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Einkaréttarkröfurnar lúta eingöngu að bótum. Það er svolítið annað en að mega hafa skoðun á því og hafa áhrif á það hvort sakamáli sé áfrýjað af því að sakamálið varðar sakfellingu og mögulega refsingu, skilorðsbundna eða óskilorðsbundna, en einkaréttarkrafan snýr bara að miskabótum eða skaðabótum. Þannig að það er spurning hvort hægt væri að setja inn í frumvarpið, ef það er ekki þar núna, einhvers konar heimild fyrir brotaþola til að geta haft áhrif á það hvort farið er í áfrýjun, að ákæruvaldinu beri að eiga a.m.k. eitt samtal við brotaþola og réttargæslumann áður en tekin er ákvörðun um að áfrýja ekki, að áður en slík ákvörðun er tekin verði að setjast niður með brotaþola.

Ég er með aðra spurningu til hæstv. ráðherra og hún lýtur að gjafsókn. Ráðherra tekur fram að í þessu frumvarpi sé heimild til gjafsóknar ef sýknað er, en að það megi áfrýja einkaréttarkröfunni áfram og fá gjafsókn. Nú liggur fyrir þinginu frumvarp til breytinga á gjafsóknarlögum er lýtur að heimild til brotaþola til að fá gjafsókn til að reka einkamál ef mál er fellt niður á rannsóknarstigi, ef það kemst ekki til dóms, að það megi samt gera tilraun til að sækja bætur. Þá snýr þetta að því að sönnunarbyrðin er miklu sterkari og ríkari í sakamálum en einkamálum. Ég velti fyrir mér hver afstaða hæstv. ráðherra er til þess að heimila veitingu gjafsóknar í þeim tilvikum, að liðka til fyrir rekstri einkamáls.