Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[20:53]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessum breytingum mjög og vil hrósa því sem vel er gert. Ég er ótrúlega ánægð með það og tek undir með hv. þm. Gísla og hv. þm. Helgu Völu þegar þau segja að hér sé um gríðarlega réttarbót að ræða.

Mig langar sérstaklega að nefna 4. gr. frumvarpsins sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Ef rannsókn máls varðar orsök andláts einstaklings getur maki eða sambúðarmaki, lögráða barn eða annar lögráða niðji, foreldri eða lögráða systkini hins látna komið fram sem fyrirsvarsmaður hans.“

Lögreglu hefur verið ansi þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að því að upplýsa fjölskyldu um rannsókn andláts og hefur verið gífurlega erfið staða uppi í þessum málum. Því fagna ég því mjög að þetta ákvæði sé komið þarna inn og tel mikilvægt að þessi heimild í lögunum sé nýtt því að við höfum séð allt of mörg dæmi á undanförnum árum þar sem lögregla hefur ekki getað upplýst aðstandendur látins einstaklings, sem er jafnvel sakamálarannsókn út af, um framgang rannsóknarinnar, sem er fjölskyldu og aðstandendum mjög þungbært. Því finnst mér þetta virkilega gott plagg og ég er ótrúlega bjartsýn á að hér sé komin — þetta er eitt skref í áttina að mjög mikilvægum bótum, þetta er stórt skref. Mér finnst ótrúlega mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd afgreiði þetta vel og sem fyrst.