Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

samningsviðauki nr. 16 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

207. mál
[13:05]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um fullgildingu og lögfestingu samningsviðauka nr. 16 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950, einnig þekktur sem mannréttindasáttmáli Evrópu.

Ég ætla að byrja á að lýsa þessu aðeins á mannamáli. Þessi viðauki er viðauki við það sem við öll þekkjum sem mannréttindasáttmála Evrópu og ég held að flestum sé hann kunnugur. Það er sá alþjóðasamningur sem við höfum gert sem er einna gagnlegastur og virkastur við vernd mannréttinda í okkar réttarkerfi. Viðauki nr. 16 gengur út á það að dómstólar í aðildarríkjunum geti beint fyrirspurn til Mannréttindadómstóls Evrópu á meðan mál er til meðferðar hjá dómstólum hér á landi og fengið leiðbeinandi álit frá dómstólnum. Tilgangur þessa viðauka og þessa fyrirkomulags er að fækka þeim málum sem þurfa að fara alla leið til Mannréttindadómstólsins með því að samræma lagaframkvæmd og dómaframkvæmd í aðildarríkjunum við mannréttindasáttmálann og dóma Mannréttindadómstólsins.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að undirrita og fullgilda samningsviðauka nr. 16 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu). Fullgilding samningsviðaukans skal fara fram eigi síðar en við árslok 2023. Ríkisstjórnin skal að því búnu stefna að því að efnisákvæði viðaukans verði lögfest svo fljótt sem verða má.“

Líkt og kemur fram í greinargerð með tillögunni, sem er mjög stutt, enda er þetta mjög einfalt mál, gengur tillagan einfaldlega út á það að við gerumst aðilar að þessum samningsviðauka sem myndi heimila íslenskum dómstólum að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu þegar upp koma grundvallarspurningar um mannréttindi við meðferð dómsmála hjá dómstólum. Ég hef lagt þessa tillögu fram áður, á 152. löggjafarþingi, en þá náði hún ekki fram að ganga og hún er endurflutt núna í alveg í óbreyttri mynd.

Samningsviðauki nr. 16 við mannréttindasáttmálann gekk í gildi 1. ágúst 2018 með fullgildingu tíu aðildarríkja á samningsviðaukanum. Þau ríki eru Albanía, Armenía, Eistland, Finnland, Frakkland, Georgía, Litháen, San Marínó, Slóvenía og Úkraína. Síðan þá hafa eftirfarandi lönd einnig fullgilt samningsviðaukann: Andorra, Bosnía og Hersegóvína, Grikkland, Holland, Lúxemborg og Slóvakía. Líkt og ég sagði áðan þá heimilar samningsviðaukinn æðstu dómstólum hvers aðildarríkis að óska eftir ráðgefandi áliti frá Mannréttindadómstóli Evrópu þegar álitaefni kunna að rísa varðandi túlkun eða beitingu þeirra réttinda sem tryggð eru með mannréttindasáttmála Evrópu eða tilheyrandi samningsviðaukum, sem eru fleiri eins og þið getið ímyndað ykkur þar sem þessi er nr. 16. Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu kveður upp slík ráðgefandi álit sem innibera röksemdafærslur dómstólsins en þau eru ekki bindandi. Beiðni um slíkt ráðgefandi álit frá Mannréttindadómstólnum þarf að varða mál sem liggur fyrir hjá viðkomandi landsdómstóli en Mannréttindadómstóllinn hefur sjálfdæmi um það hvort hann veiti þetta ráðgefandi álit, getur sem sagt hafnað slíkri beiðni. Helsta skilyrði er að fyrirspurnin varði grundvallarspurningu og að grundvallarspurningunni þurfi að svara til þess að leysa úr því máli sem fyrir hendi er.

Samkvæmt þáverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, á árunum 2015–2019, Guido Raimondi, styrkir samningsviðauki nr. 16 samtalið milli Mannréttindadómstóls Evrópu og æðstu dómstóla aðildarríkjanna. Samningsviðaukinn er undirstöðuatriði í sögu mannréttindasáttmála Evrópu og meiri háttar þróun í verndun mannréttinda í Evrópu. Það eru níu lönd í viðbót sem hafa einnig undirritað samningsviðaukann en eiga eftir að fullgilda hann. Það eru Aserbaídsjan, Belgía, Ítalía, Moldóva, Norður-Makedónía, Noregur, Rúmenía, Svartfjallaland og Tyrkland.

Ég hef ekki trú á öðru en að allir þingmenn séu sammála um að það væri til bóta í okkar réttarkerfi að tryggja annars vegar með öllum mögulegum leiðum, þessi leið er skjót og góð og greið, að dómar íslenskra dómstóla séu í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu og dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins. En skilvirknin er einnig fyrir einstaklinga sem þurfa þá ekki að hlíta því að fá dóm á Íslandi sem þeir telja að brjóti gegn réttindum sínum og síðan að líta til Mannréttindadómstóls Evrópu um sérstakan dóm frá þeim sem tekur oft mörg ár. Þetta væri því mjög til bóta fyrir íslensk stjórnvöld og ætti ekki að hafa í för með sér neinn kostnað eða neitt slíkt fyrir Ísland en myndi verða bylting í vernd mannréttinda hér á landi. Ég hvet alla þingmenn til að aðstoðað mig við að koma þessu máli hér í gegn.