Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

greining á samkenndarþreytu og tillögur að úrræðum.

208. mál
[13:12]
Horfa

Flm. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um greiningu á samkenndarþreytu og tillögur að úrræðum. Flutningsmenn þessarar tillögu eru ásamt mér eftirtaldir hv. þingmenn: Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Guðbrandur Einarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Síðustu misseri, og sér í lagi í kjölfarið á heimsfaraldri Covid, hefur verið talað um langvarandi álag og við gerum okkur grein fyrir að það getur haft veruleg áhrif á heilsu fólks til framtíðar. Mikilvægt er að nýta ávallt öll þau verkfæri sem við höfum í skúffunni sem geta bætt líf og heilsu fólks í landinu. Þannig byggjum við betra samfélag til framtíðar. Af þessu tilefni lagði sú sem hér stendur fram tillögu á 152. löggjafarþingi og legg ég hana nú fram aftur með smávægilegum breytingum. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það markmið að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum, svo sem starfsfólks heilbrigðiskerfisins, lögreglu, slökkviliðs og í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Hlutverk starfshópsins verði að:

a. greina vandann með gagnreyndum aðferðum, þ.e. rannsaka starfstengd lífsgæði meðal fagfólks í þessum greinum með áherslu á samkenndarþreytu, annars stigs áföll, kulnun og samkenndarsátt,

b. bera niðurstöður saman við þær sem fengist hafa í öðrum löndum,

c. nýta niðurstöður til þess að bera saman starfstengd lífsgæði fagfólks á milli starfseininga og meta þar með þörfina eftir úrræðum,

d. koma með tillögur að úrræðum. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins og kynni tillögur að úrræðum eigi síðar en 1. maí 2023.“

Þar sem ég mæli svo seint fyrir þessu máli, þrátt fyrir að það hafi komið snemma inn á þing, má gera ráð fyrir því að ráðherra þyrfti lengri frest yrði tillagan samþykkt.

Í umsögnum á síðasta þingi kom fram að mikilvægt væri að starfshópurinn yrði skipaður fagfólki með sérþekkingu á sviði samkenndarþreytu, kulnunar og annars stigs áfalla. Sammerkt er með umsögnum að sterkar vísbendingar séu um að einkenni samkenndarþreytu hafi versnað til muna síðustu ár og aukning hafi verið í langvarandi veikindum.

En að efni tillögunnar. Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að heilbrigðis- og menntakerfinu stafi ógn af samkenndarþreytu, annars stigs áföllum og kulnun en að samkenndarsátt sé verndandi þáttur. Í mjög einfölduðu máli er samkenndarþreyta það þegar fagfólk gefur meira af eigin orku til vinnu sinnar en það fær til baka. Sérfræðingar hafa greint samkenndarþreytu í tvennt, annars stigs áfall og kulnun. Til að útskýra nánar samkenndarþreytu þarf að byrja á því að benda á að áfall er þegar einstaklingur upplifir eða verður vitni að atburði sem hann telur að geti verið lífsógnandi eða valdið alvarlegum meiðslum hjá honum sjálfum eða öðrum. Viðbrögð hans geta verið sterk streituviðbrögð, mikill ótti, skelfing og jafnvel hjálparleysi. Ákveðinn hluti þeirra sem lenda í áfalli veikist af sálrænum kvillum, t.d. áfallastreituröskun, í kjölfar áfallins. Samkvæmt skilgreiningu áfalls eru það ekki eingöngu þeir sem hafa sjálfir upplifað áfallaatburðinn sem geta þróað með sér áfallastreituröskun heldur einnig þeir sem heyra um eða verða vitni að atburðinum. Dr. Charles Figley benti á þá staðreynd 1995 að margar fagstéttir, svo sem sálfræðingar, kennarar og hjúkrunarfræðingar og fleiri, þróuðu með sér einkenni sem væru sambærileg einkennum áfallastreituröskunar þegar þær yrðu ítrekað vitni að þjáningu, angist og sorg skjólstæðinga sinna og að atgervisflótti væri greinanlegur hjá fagfólki sem vinnur við það að hjálpa öðrum. Í framhaldi skilgreindi Figley annars stigs áfall, samkenndarþreytu og samkenndarsátt. Hann segir mannlegt að upplifa líkamleg og andleg viðbrögð við því að verða vitni að þjáningu annara.

Annars stigs áfall á við þegar starfsmaðurinn finnur að vinnan hefur veruleg áhrif á líðan hans. Það getur m.a. komið fram í endurupplifunum tengdum atviki sem hann vann með í starfi, óöryggi, vonleysi, forðun, kvíða, depurð og/eða tilfinningalegum doða. Annars stigs áfall getur komið í kjölfar staks atburðar eða vegna endurtekinna atburða. Þrátt fyrir að hugtakið kulnun sé sífellt oftar í umræðunni hefur ekki enn skapast víðtæk sátt um skilgreiningu þess þó að einkennin séu almennt viðurkennd. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki enn skilgreint kulnun sem sjúkdóm eða röskun en skilgreinir hana sem heilkenni í kjölfar langvarandi streitu á vinnustað. Þrátt fyrir að formlegri greiningar séu ekki komnar fram er kulnun raunveruleg ógn. Kulnun er talin þróast smám saman yfir langvarandi tímabil sé ekki brugðist við afleiðingum streitu eða áfalla í vinnu og hún lýsir sér m.a. í tilfinningalegri örmögnun, bölsýni, aftengingu og/eða neikvæðni gagnvart vinnufélögum og vinnustað og neikvæðu mati á eigin getu ásamt minna sjálfstrausti og minni afköstum.

Virðulegi forseti. Heilbrigðisstarfsmaður upplifir samkenndarsátt m.a. þegar honum líður vel í vinnu, upplifir öryggi á vinnustað, að traust ríki á meðal starfsfélaga, að það sem hann gerir skipti máli fyrir skjólstæðing hans, aðstandendur og samfélagið. Þá fær starfsmaðurinn orku til baka frá umhverfinu sem vegur á móti orkunni sem hann gaf af sér við það að hjálpa öðrum. Hægt er að stuðla að samkenndarsátt með íhlutun, t.d. með fræðslu og námskeiðum, með því að fá handleiðslu frá fagaðila, hafa skýr mörk á milli vinnu og einkalífs, gefa svigrúm fyrir slökun, hugleiðslu og núvitundaræfingar og loks með því að taka eftir því sem vel er gert og veita styrkleikum athygli. Auðveldara getur reynst að vinna með annars stigs áföll heldur en kulnun og því er mikilvægt að greina vandann sem fyrst.

Erlendar rannsóknir sýna að samkenndarþreyta meðal heilbrigðisstarfsfólks er vaxandi vandi. Þá er talin sérstök áhætta fylgja því að vinna á bráðadeildum og krabbameinsdeildum. Fyrir yfirstandandi heimsfaraldur Covid-19 bentu rannsóknir til þess að samkenndarþreyta væri að aukast á meðal heilbrigðisstarfsfólks og nauðsynlegt væri að fyrirtæki og stofnanir ígrunduðu mikilvægi þess að hlúa að mannauðnum. Ætla má að samkenndarþreyta sé enn meiri eftir Covid þar sem öryggi fagfólks hefur verið ógnað og starfsaðstæður hafa orðið jafnvel enn meira krefjandi. Það hefur sýnt sig að þegar vinnustaðir leggja áherslu á að sporna við samkenndarþreytu með íhlutun á borð við námskeið um samkenndarþreytu og samkenndarsátt þá eykst samkenndarsátt, það dregur úr samkenndarþreytu og minni líkur eru á atgervisflótta.

Það eru til tæki sem hægt er að nota og spurningalistinn Professional Quality of Life Measure er mælitæki sem kannar bæði neikvæð og jákvæð áhrif þess að starfa við að hjálpa þeim sem hafa upplifað eða eru að upplifa einhvers konar þjáningu, angist eða sorg og/eða hafa lent í áfalli. Hérlendis eru ekki til rannsóknir, samkvæmt heimildaleit, þar sem ProQOL-sjálfsmatskvarðinn hefur verið notaður til að rýna í starfstengd lífsgæði. Í umsögn Handleiðslufélags Íslands um málið frá 152. þingi kom fram að þriggja manna starfshópur félagsráðgjafa og handleiðara ynni að þýðingu á spurningalistanum yfir á íslensku ásamt stöðlun með leyfi frá útgefanda. Nú er búið að þýða og bakþýða spurningalistann og unnið er að því að leggja lokahönd á íslensku útgáfuna. Ef listinn er ekki þegar tilbúinn til notkunar þá mun hann verða það innan skamms, bæði klínískt og til rannsókna. Ég hef einmitt þær upplýsingar hjá mér að nú þegar bíði verkefni eftir þessum lista.

Í umsögn Kennarasambands Íslands frá síðasta þingi kom fram að aukning langvarandi veikinda, m.a. kulnunar, hefði verið það mikil að skerða hefði þurft réttindi félagsmanna KÍ til sjúkradagpeninga vegna hættu á að sjúkrasjóður KÍ myndi tæmast. Í umsögninni kom jafnframt fram að nýjar rannsóknir sýndu að einkenni kulnunar hefðu aukist. Hjördís Sigursteinsdóttir, dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, hefur unnið að slíkum rannsóknum frá árinu 2010. Í rannsókn frá árinu 2019 mældust 33% grunnskólakennara með engin merki um kulnun í starfi, tæplega 44% mældust með nokkur atriði sem einstaklingur ætti að vera meðvitaður um, 20,5% mældust með kulnunareinkenni sem þeir ættu að gera eitthvað í og 2,7% kennara mældust svo útbrunnir að þeir ættu að leita sér tafarlaust hjálpar til að breyta stöðu sinni. Árið 2021 var sami spurningarlisti lagður fyrir og kom í ljós að hlutfall grunnskólakennara með kulnunareinkenni sem þeir ættu að gera eitthvað í var hærra en árið 2019, eða tæp 24%. Einnig hafði hækkað hlutfall þeirra grunnskólakennara sem voru svo útbrunnir að þeir ættu að leita sér tafarlaust hjálpar til að breyta stöðu sinni, og var 3,6%. Þessar upplýsingar eru skýr merki um ástand sem bregðast þarf við.

Í umsögn Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að fastlega megi áætla að samkenndarþreyta sé til staðar meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga eins og víða erlendis þótt ekki hafi verið gerðar stórar rannsóknir þess eðlis hér á landi. Hins vegar hefur kulnun, sem er skilgreint afbrigði samkenndarþreytu, verið rannsökuð meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga. Rannsóknir sýna fram á að kulnunareinkenni eru að færast í aukana hjá hjúkrunarfræðingum og sérstaklega á tímum heimsfaraldurs þar sem hjúkrunarfræðingar hafa gegnt lykilhlutverki. Auk gríðarlegs álags tengdu faraldrinum hafi áfram þurft að sinna þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og hafi þetta mikla álag farið að skila sér í uppsögnum hjúkrunarfræðinga, langvarandi veikindum og kulnun í starfi. Um 25% aukning hefur orðið á umsóknum hjúkrunarfræðinga í styrktarsjóð Fíh 2020–2021 og hefur hún aldrei verið jafn mikil. Samkvæmt upplýsingum frá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði hefur fjöldi hjúkrunarfræðinga sem sækja þjónustu hjá þeim aldrei verið eins mikill og nú.

Í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan telja flutningsmenn brýnt að skoðað verði hvernig kerfið hlúir að fólkinu okkar sem vinnur við að hjálpa öðrum. Kostnaður vegna veikinda, ofþreytu og neikvæðra afleiðinga álagseinkenna er mikill, hvort sem er fyrir einstaklinginn eða kerfið. Því er mikilvægt að hanna gagnalíkan út frá rannsóknum til þess að meta hverjir séu í meiri hættu en aðrir á að þróa með sér samkenndarþreytu og þannig mætti grípa fyrr inn í. Þörf er á að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum svo að hægt sé að efla aðgerðir til heilsueflingar og forvarna.

Það er ljóst að við þurfum að skoða starfsumhverfi þeirra sem vinna við að hjálpa öðrum með það að leiðarljósi að halda okkar góða fólki ánægðu og heilbrigðu. Ég óska því eftir að þessi þingsályktunartillaga gangi til velferðarnefndar og fái umfjöllun þar og að hún verði samþykkt.