Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

velsældarvísar fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað.

276. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég flyt hérna tillögu til þingsályktunar um velsældarvísa fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað. Þingflokkur Pírata flytur þetta mál. Um hvað snýst þetta?

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að setja stefnu um velsældarvísa fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað. Sérstaklega verði hugað að því að velsældarvísarnir sýni hvort nægt framboð sé á íbúðum fyrir námsmenn, félagslegu húsnæði.“

Aðgerðir til að mæta íbúðaskorti eru mjög aðkallandi. Þó að aldrei hafi verið byggt meira í Reykjavíkurborg en á undanförnum árum og uppbyggingu hafi verið flýtt á mörgum svæðum þarf enn að bæta við húsnæði til að mæta óuppfylltri og fyrirséðri þörf fyrir nýjar eignir. Samkvæmt greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á húsnæðismarkaði þarf að byggja um 2.000 íbúðir á ári til ársins 2040. Að auki er þörf fyrir 5.000 nýjar íbúðir til að mæta núverandi óuppfylltri þörf. Til þess að styðja betur við opinbera ákvarðanatöku um uppbyggingu húsnæðis víðs vegar um land er því lagt til að innviðaráðherra setji stefnu um velsældarvísa fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað. Vísarnir eiga að sýna stöðu húsnæðismála út frá ýmsum sjónarhornum, sér í lagi húsnæðismálum fyrir viðkvæmari hópa samfélagsins.

Tryggja verður uppbyggingu námsmannaíbúða og heimavista um allt land fyrir bæði háskóla- og framhaldsskólastig til að aðgengi til náms verði óháð búsetu og aðstæðum námsfólks, en á undanförnum árum og áratugum hefur aðgengi að slíku húsnæði dregist mjög saman. Fyrir námsfólk sem kemur úr dreifðari byggðum getur heimavist verið nauðsynleg forsenda fyrir aðgengi að námi. Þó að fjarnám fylli auðvitað upp í ákveðna gjá þarna þá nær það ekki alveg alla leið.

Þá verður einnig að grípa til aðgerða til að styðja óhagnaðardrifin leigufélög og húsnæðissjálfseignarstofnanir. Því markmiði má ná samhliða aðgerðum í fyrsta kafla stefnunnar, þar sem hægt er að tryggja stofnframlög í miklum mæli til slíkra úrræða. Þau hafa þegar borið árangur með uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga víða um land. En betur má ef duga skal.

Í svari innviðaráðherra við fyrirspurn um fjölda félagslegra íbúða á 152. löggjafarþingi, 305. mál, kom fram að hlutfall félagslegra íbúða er mjög mismunandi milli sveitarfélaga. Eðlilegt væri að gerðar væru lágmarkskröfur til sveitarfélaga þannig að öll sveitarfélög axli sameiginlega samfélagslega ábyrgð á því að bjóða upp á nauðsynleg, félagsleg úrræði. Ekki getur talist rétt að sum sveitarfélög axli meiri ábyrgð á þessum vanda en önnur. Um er að ræða samfélagslegt verkefni þar sem öll sveitarfélög bera sameiginlega ábyrgð.

Það er alveg skýrt og greinilegt að það er vandamál á húsnæðismarkaði og hefur verið lengi. Hlutverk hins opinbera, þ.e. ríkisins, er takmarkað á þessum vettvangi en áhrifin sem ríkið getur haft með ákveðnu frumkvæði geta verið þó nokkuð mikil. Sveitarfélög bera þar ábyrgð líka en svigrúm til samvinnu við ríkið, t.d. um námsmannaíbúðir og félagslegt húsnæði, er mikið. Markaðurinn er síðan úrlausnarefni út af fyrir sig en ef grunnforsendunum er sinnt þá væri hægt að ná miklum árangri.

Ég held að mesta sóknarfærið sé í rauninni að vinna með lífeyrissjóðum þar sem núverandi lífeyriskerfi snýst í rauninni um það að tryggja fólki nægilega mikla framfærslu með lífeyri án húsnæðis, þ.e. að fólk eigi skuldlaust húsnæði og hafi þá nægan lífeyri í gegnum þær lífeyrisgreiðslur, þau réttindi sem fólk hefur öðlast í gegnum greiðslur í lífeyrissjóði á starfsævi sinni. Þetta er rosalega mikilvægt að átta sig á. Við þurfum sífellt að spyrja okkur þeirrar spurningar: Geta allir átt eða orðið sér úti um skuldlaust húsnæði þegar þeir komast á lífeyri? Ef ekki þá er eitthvert vandamál í gangi og þá þurfum við að spyrja okkur af hverju vandamálið er til staðar og hvað sé hægt að gera til að laga það. Það eru fullt af aðferðum svo sem til þess en lífeyrissjóðir liggja þar beinast við, enda er það fyrirkomulag að finna í mörgum öðrum löndum að lífeyrissjóðir sjái um ákveðna uppbyggingu á húsnæðismarkaði t.d. til leigu. Kaupleiga væri í rauninni mjög sniðug hvað það varðar. Það er helmingurinn af fjárfestingu hvers og eins að fjárfesta í steypu eða þaki yfir höfuðið út starfsævina, alla vega á meðan við erum með þetta lífeyriskerfi sem við erum með í dag. Og fyrst hluti eða helmingur lífeyriskerfisins er að eiga skuldlaust húsnæði þá er mjög eðlilegt að lífeyrissjóðirnir séu einmitt mikið í fjárfestingu í húsnæði. Það kemur í rauninni út á það sama, eykur öryggi til mikilla muna að lífeyririnn skili þeim ráðstöfunartekjum sem hver og einn hefur reynt að safna sér fyrir út ævina en þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að nýta þær ráðstöfunartekjur til að greiða fyrir t.d. lán eða leigu. Það er dálítið áhugavert að átta sig á því að lífeyrir ásamt því að leigja húsnæði er ekkert rosalega sjálfbært, sérstaklega ekki fyrir fólk sem hefur verið í lægri tekjutíundunum, sem er aðallega fólkið sem hefur ekki haft efni á því að kaupa sér íbúð þegar allt kemur til alls. Maður gæti séð fyrir sér samlegðaráhrif í þessu þar sem lífeyrissjóðirnir sjái um það að byggja upp húsnæði að mjög miklu leyti og að það húsnæði sé jafnvel í einhvers konar kaupleigu þar sem viðkomandi aðili, sem verður lífeyrisþegi þegar starfsævinni lýkur, sé þá kominn í skuldlaust húsnæði, hafi í rauninni greitt upp kostnað lífeyrissjóðsins við uppbyggingu á húsnæðinu sem veltur þá bara áfram í þeirri greiðslu í næstu uppbyggingu. Þannig geti lífeyrissjóðir verið ákveðinn drifkraftur í húsnæðisuppbyggingu, sérstaklega með tilliti til, myndi ég segja, kaupleigukerfis frekar en endilega hrárri leigu því að hinn hlutinn af lífeyriskerfinu okkar er ekki alveg hentugur til að greiða leigu af þeim ráðstöfunartekjum sem við fáum frá lífeyrissjóðum. Það dugar ekki alveg til. Þannig að módelið er skuldlaust húsnæði og ráðstöfunartekjur utan húsnæðis. Það er heildarlífeyriskerfið. Að greiða einhvern hluta af þeim ráðstöfunartekjum í húsnæði skerðir möguleika fólks og í rauninni þann samfélagssáttmála sem við höfum gert með tilliti til lífeyriskerfisins okkar mjög mikið.

Til þess eru þessir velsældarvísar. Þeir eru til þess að við getum, bæði þing og þjóð, litið á þessa velsældarvísa og séð stöðuna, ekki bara eins og hún er nákvæmlega núna heldur hvernig hún mun þróast á næstunni með t.d. ríkisfjármálaáætlun. Hvaða áhrif hefur hún þar á? Hvar eru brotalamir í kerfinu? Hvar þarf að leggja áherslu á uppbyggingu og þess háttar? Án þessara velsældarvísa erum við stöðugt að spyrja sömu spurninganna aftur og aftur og það er alltaf verið að vinna sömu verkin. Það væri mjög eðlilegt að þarna væru bara staðlaðir velsældarvísar, svipað eins og verðbólgumælingar eða hagvaxtarmælingar. Þarna væru húsnæðismælingar sem væru mjög aðgengilegar og sýndu okkur í raun og veru hver staðan er. Þær eru ekki alveg nógu vel uppfærðar í dag. En þessi tillaga snýr að því að bæta það.