131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[14:39]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Orkuveita Húsavíkur varð til 1. janúar 1996 þegar rafmagnsveita, vatnsveita og hitaveita á Húsavík sameinuðust í eitt fyrirtæki og menn fóru þar svipaða leið og víða annars staðar hefur verið, þ.e. að þeir sameinuðu þessa veituþætti alla í eitt fyrirtæki og einn rekstur og eru að sjálfsögðu fyrir því augljós hagkvæmnisrök, praktísk rök.

Þessi rekstur hefur verið mjög farsæll á Húsavík og enginn vafi leikur á því að t.d. stofnun hitaveitunnar og það hversu snemma Húsvíkingar tengdust virkjunum, allt frá því að í upphafi var virkjað í Búðará og síðan lögð lína nokkrum áratugum síðar frá Laxárvirkjun, skipti að sjálfsögðu miklu fyrir framþróun byggðar á Húsavík. Kannski var þó stærsta skrefið tekið þegar Hitaveita Húsavíkur tók til starfa 1970 og Húsvíkingar fóru að njóta góðs af því að tengjast eða fá inn í hús sín heitt vatn til hitunar og nota á afar hagstæðum kjörum. Um langt árabil var Hitaveita Húsavíkur einhver hagkvæmasta hitaveita á landinu enda kjöraðstæður til slíkrar virkjunar á því svæði, gnægð af heitu vatni í landinu inn af bænum, uppi í Reykjahverfi og reyndar víðar ef út í það væri farið, og sökum halla á landinu niður að sjó nánast sjálfrennandi þannig að ekki var dælingarkostnaðinum fyrir að fara. Má jafnvel um það ræða hvort Húsvíkingar hafi ekki orðið ofdekraðir með vissum hætti af þessu ástandi og hneigst til að hafa gjaldskrár óhóflega lágar því enginn vafi er á því að Orkuveita Húsavíkur gæti í dag verið jafnvel enn sterkara fyrirtæki en hún er ef gjaldskrám hefði ekki verið hagað með þeim hætti að þær voru afar hagstæðar bæjarbúum á löngum árabilum og hafa lengst af verið sem að sjálfsögðu er gott. En upp á endurnýjunarþörf og framtíðarfjárfestingar mætti sjálfsagt færa rök fyrir því að gengið hafi verið alveg út á ystu nöf í þá átt að láta menn á hverjum tíma njóta hagkvæmninnar af ódýrri orku þangað til ráðast þurfti í fjárfestingar á vegum fyrirtækisins.

Nú hefur borist sú ósk frá bæjaryfirvöldum á Húsavík að þau fara fram á að þeim verði heimilað að stofna hlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur. Þetta er auðvitað í samræmi við það sem gerst hefur víða að undanförnu, að menn hafa valið þessa leið, og í því ljósi skiljanlegt að Húsvíkingar horfi til þess að samræma þennan rekstur hjá sér því sem gerist t.d. í nágrannasveitarfélaginu eða bæjarfélaginu á Akureyri. Það fylgir reyndar með, og kom fram í iðnaðarnefnd í bréfi frá bæjaryfirvöldum á Húsavík, að þar hefur verið fært til bókar í bæjarstjórn að engin áform eru um að selja, að einkavæða með sölu eða sameiningu þennan rekstur. Það er vilji bæjaryfirvalda á Húsavík eða a.m.k. þess meiri hluta sem þar er að reka þessa starfsemi áfram sem opinbera veitu- og þjónustustarfsemi í þágu bæjarbúa og að arðurinn af rekstrinum gangi til bæjarbúa annaðhvort í formi hagstæðrar gjaldskrár eða arðgreiðslna fyrirtækisins í bæjarsjóð. Þetta skiptir að sjálfsögðu miklu máli, a.m.k. hvað ræðumann varðar, því að hefðu aðrir hlutir verið á döfinni eins og þeir að undirbúa þarna einkavæðingu þá hefði ekki þurft að sökum að spyrja um mína afstöðu. Slíku er ég og væri í öllum tilvikum alfarið andvígur því ég tel að m.a. farsæll rekstur þessarar almannaþjónustu á höndum samfélagsins undanfarna áratugi hafi akkúrat sannað gildi þess að standa einmitt þannig og á engan hátt öðruvísi að málum.

Hitt verð ég að segja að það veldur mér vonbrigðum að það skuli hafa orðið niðurstaða manna að óska eftir því að nota form hlutafélags. Ég hefði talið æskilegra og í raun, má segja, rökréttara miðað við þessi áform og þennan pólitíska vilja sem málinu fylgir að menn hefðu skoðað til þrautar kosti þess að fara svipaða leið og Reykvíkingar, að setja þessa veitustarfsemi og þessa almannaþjónustu í sameignarform þó eigandinn væri að vísu fyrst um sinn aðeins einn. En ekkert er því til fyrirstöðu að velja eftir sem áður það rekstrarform. Mögulega gætu síðan nágrannasveitarfélög komið til sögunnar og gerst meðeigendur með svipuðum hætti og gerst hefur í tilviki Orkuveitu Reykjavíkur þegar sameignaraðilum að sameignarfélaginu hefur fjölgað með þátttöku nýrra svæða í orkuveitunni. Þann þátt málsins get ég því ekki stutt, herra forseti, þ.e. þann sem snýr að nákvæmlega þessu rekstrarformi. En ég sé ekki ástæðu til að bregða fæti fyrir málið og framgöngu þess hér í ljósi þess að þetta er ósk heimamanna, en vísa að öðru leyti í það sem ég hef um þetta sagt.

Þetta leiðir hins vegar hugann að því sem er meira en tímabært að tekið verði á dagskrá á Íslandi af alvöru. Reyndar liggur fyrir þingmál frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að það verði gert. Hún flutti tillögu til þingsályktunar um að farið verði í þá vinnu að skilgreina og færa í lög möguleikann á því að um hlutafélög í eigu opinberra aðila gildi sérstök lagaákvæði. Þetta er yfirleitt til staðar í nágrannalöndunum og jafnvel eru fleiri rekstrarform sérstaklega sniðin að þörfum fyrirtækjarekstrar, oftast á sviði almannaþjónustu sem menn ætla um ókomin ár að hafa í opinberu eignarhaldi. Þar eru sem sagt til staðar allítarleg ákvæði í lögum um opinber hlutafélög, yfirleitt í eigu ríkis eða sveitarfélaga, og jafnvel um einhvers konar blöndu af hlutafélagi og sameignarformi að ræða sem gengur undir mismunandi nöfnum og getur hentað prýðilega til þess að færa í rekstrarform og nær því skipulagi sem gerist og gengur á almennum markaði, ákvæði um slíkan rekstur.

Hins vegar er alveg ljóst að einkahlutafélagsformið hentar að ýmsu leyti ekki vel fyrir almannaþjónusturekstur af því tagi sem hér á í hlut. Til dæmis klippist þá með vissum hætti á þann lýðræðislega rétt og það lýðræðislega aðhald sem hreint bæjar- eða ríkisfyrirtæki er sett undir sem allur annar rekstur á vegum sveitarfélaga eða ríkis. Þá gilda þær reglur sem við þekkjum um upplýsingagjöf, um rétt manna til upplýsinga, um rétt manna til að hafa áhrif og koma að stefnumótun og annað í þeim dúr sem búið er um með öðrum hætti ef reksturinn verður að fara alveg yfir í hitt formið, þ.e. hlutafélaga- eða einkahlutafélagaformið. Þarna vantar augljóslega útfært og skynsamlegt millistig, hvort sem það væri kallað opinber hlutafélög, fyrirtæki eða sameignarfélög í rekstri í eign opinberra aðila. Ég skýt þessu að því mér er nær að halda að við værum einmitt með dæmi í höndunum þar sem menn hefðu fagnað því að eiga kost á því að velja slíkt útfært form fyrir þann rekstur. Ég held að það hefði hentað þeim markmiðum sem málinu fylgja af hálfu heimaaðila að færa þetta nær því lagaumhverfi sem gildir almennt um fyrirtæki í rekstri á þessu sviði. Menn horfa til þróunarinnar eins og hún hefur orðið hér bæði norðan og sunnan heiða hjá öðrum sambærilegum eða stærri aðilum en hafa heldur ekki áhuga á því að fara yfir í rekstrarform hlutafélags eða einkahlutafélags með það að markmiði að eignarhaldinu verði breytt, heldur þvert á móti hið gagnstæða. Það fylgir yfirlýsing frá Húsavíkurkaupstað um að engin áform séu uppi um slíkt.

Þetta gefur því tilefni til þess, herra forseti, að farið sé yfir það og væntanlega er þingmálið einhvers staðar til umfjöllunar í þinginu í þingnefnd. Ég held að ástæða sé til að menn ræddu það hvort ekki væri hægt að ná samstöðu um, a.m.k. að skoða málið rækilega, það getur varla verið hættulegt að setja í það nefnd að skoða útfærsluna og hvort ekki er ástæða til að möguleikar af þessu tagi séu í íslenskum lögum eins og er í lögum flestra nágrannalandanna það best ég veit.