131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[17:17]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti eftirtektarvert í málflutningi hv. þingmanns hversu ríka áherslu hann lagði á að íbúar ýmissa sveitarfélaga úti á landi hefðu haft af því góðan hagnað og mikinn ávinning að hitaveita þeirra sveitarfélaga rynni til Orkuveitu Reykjavíkur. Ber svo að skilja, eins og hann lagði upp mál sitt, að meiri trygging væri fyrir því að það fyrirtæki fremur en önnur gæti búið vel að orkuöflun fyrir íbúa landsbyggðarinnar, fremur en t.d. einkafyrirtæki þó í eigu væru manna utan af landi? Þannig skildi ég hv. þingmann. Mér þótti þetta merkilegt en verð að lýsa því yfir að ég er ekki sammála því að okkur beri að líta þannig á að með því að færa orkuveitur landsbyggðarinnar undir hatt Orkuveitu Reykjavíkur séum við endilega að styrkja landsbyggðina, þ.e. með því að færa þær undir þær höfuðstöðvar sem hér eru og þá miðstýringu sem hér er í gegnum Reykjavíkurborg og í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur. Upp á síðkastið, eftir að R-listinn komst til valda í Reykjavík, hafa áherslur Reykjavíkurborgar í málefnum landsbyggðarinnar breyst mjög mikið eins og hv. þingmaður veit, hvort sem við lítum til flugvallarins eða til annarra mála, samgöngumála, atvinnumála eða hvers og eins. Ég get ómögulega tekið undir með hv. þingmanni að það sé einhver sérstök trygging fyrir landsbyggðina að færa sín mál undir Orkuveitu Reykjavíkur.