131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[18:09]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvar hv. þm. Jóhanns Ársælssonar olli mér nokkrum vonbrigðum. Ég er yfirleitt að mörgu leyti ánægður með málflutning hv. þingmanns og þykir hann málefnalegur oftar en ekki. Hv. þingmaður segir hér og tekur það réttilega upp úr áliti meiri hluta nefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að breytingin hafi í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir frumlyfjaframleiðendur. Þessu verður ekki á móti mælt því að gestir nefndarinnar voru á einu máli hvað þetta varðar. Hins vegar kom það mjög skýrt fram, og ég held ég sé að segja það í fjórða skiptið hér úr ræðustól, að þetta mundi styrkja starfsumhverfi og lagaumhverfi samheitalyfjaframleiðenda í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. (Gripið fram í.) Við vitum það jafnframt, hv. þingmenn sem eigum sæti í iðnaðarnefnd þingsins, að nokkrar aðrar Evrópuþjóðir hafa innleitt þennan þátt í einkaleyfalögin, þannig að það er beinlínis rangt sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur sagt í þessari umræðu að við ættum að gera þetta á sama tíma og allar aðrar þjóðir í Evrópusambandinu. Það er beinlínis rangt (Gripið fram í.) því að nokkrar aðrar þjóðir hafa tekið þessa löggjöf upp á síðastliðnum missirum.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spyr hver græðir á þessu. Er það svo hrikalegt ef íslenskur samheitalyfjaiðnaður gæti hugsanlega grætt eitthvað á þessu þó að við höfum ekki fengið nein svör við því? Það er ljóst að enginn mun bíða tjón af þessu, en það er líka ljóst að ef þessi iðnaður fengi á sig lögsóknir og lagagrunnurinn hér heima væri ekki nógu sterkur þá yrði hann fyrir verulegum skakkaföllum af völdum þeirrar lögsóknar.