132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:54]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum orðið vitni að langri og yfirgripsmikilli ræðu hjá hv. þingmanni. Samt sem áður er ekki ljóst hvað talsmaður Samfylkingarinnar vill í þessu máli. Mér finnst það vera alveg klárt eftir að hafa tekið þátt í störfum nefndarinnar hvar Vinstri grænir eru á þessum kanti. Mér fannst svar hv. þingmanns og málflutningur hans í þessari löngu ræðu vera mjög misvísandi. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni áfram og heyra hvað aðrir talsmenn Samfylkingarinnar munu segja um þetta tiltekna mál sem er eignarrétturinn þegar verið er að taka vatn, heitt vatn, gufu, kalt vatn og aðrar auðlindir og selja til þriðja aðila. Mér finnst af og frá að hv. þingmaður hafi skýrt nákvæmlega út hvað hann á við eftir þá miklu umfjöllun sem þó hefur átt sér stað um málið.