132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:41]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er venja í sölum Alþingis þegar menn eru í vondum málum að grípa til einhvers konar útúrsnúninga. Við höfum sagt að við erum á móti endurskilgreiningunni á því hugtaki sem menn vilja nota núna, einkaeignarréttur á vatni. Þeir sem hafa talað fyrir því halda því fram að þetta sé einungis formbreyting. Samt vilja þeir leggja allt á sig til að formbreytingin nái fram að ganga. Hvernig stendur á því að þetta er svona mikið mál? Þetta er aðalatriði frumvarpsins sem um ræðir og kallað aðalmarkmið frumvarpsins að ná fram þeirri formbreytingu. Það skiptir engu máli þegar verið er ræða þetta mál, þá er þetta er bara formbreyting.

Ég held að full ástæða sé til að tortryggja að þetta sé bara formbreyting. Ég vitna til þess sem ég hef áður látið koma fram, að sá sem samdi frumvarpið hélt því fram að ef þeirri skilgreiningu sem er í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu yrði breytt mundi það skapa skaðabótaskyldu. Er þetta þá bara formbreyting? Ég frábið mér að menn séu með sífelldan útúrsnúning. Við höldum því fram að sú skilgreining á vatni sem hefur verið í gildi fram að þessu eigi að vera það áfram. Hún þýðir að enginn eigi vatnið. Menn eigi réttindin til að nýta það, menn eigi orkuna, menn eigi möguleikana til að virkja orku og annað slíkt og fara með vatn á sínu landi. En þeir eigi ekki vatnsdropana sem um landið renna enda er erfitt að finna út skilgreiningu sem getur sagt mönnum að þeir geti átt vatn. Ekki ættu menn síður að geta átt vindinn sem blæs yfir löndum þeirra en vatnið sem rennur þar um.