132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[21:36]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til vatnalaga. Ég sit fyrir hönd Frjálslynda flokksins í iðnaðarnefnd þingsins og einnig í umhverfisnefnd þingsins sem áheyrnarfulltrúi. Það vekur athygli mína að hér er eingöngu rætt um vatn út frá nýtingarstefnunni. Það er eins og það sé bara valtað algjörlega yfir öll umhverfissjónarmið hvað þetta varðar.

Það segir nokkuð um hve góð tök annar stjórnarflokkurinn hefur á þessum málaflokki að hann getur ýtt Sjálfstæðisflokknum algjörlega til hliðar. Formaður iðnaðaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, leiðir málið áfram fyrir hönd hæstv. iðnaðarráðherra og valtar yfir öll umhverfissjónarmið. Það kemur greinilega fram í umsögnum með frumvarpinu. Helstu stofnanir í umhverfismálum, svo sem Umhverfisstofnun, gefa þessu frumvarpi mjög lága einkunn. Ekki nóg með það heldur liggur fyrir að við Íslendingar þurfum að löggilda vatnatilskipun Evrópusambandsins. Ef allt væri með felldu horfðu menn yfir sviðið og reyndu að gæta jafnvægis. En það er ekki gert, alls ekki.

En ég ætlaði ekki að gera umhverfismálin að meginefni ræðu minnar. Þeim hafa verið gerð mjög góð skil í fyrri ræðum. Einnig hefur verið farið mjög rækilega yfir réttarfarslega sögu þessa máls. Ég vil hrósa þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls, bæði hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, sem fór yfir sín sjónarmið, og ekki síður hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, en þeir fóru yfir tilurð laganna sem til stendur að breyta með þessu frumvarpi, sem eru frá árinu 1923. Það má vera að megininntak frumvarpsins sem við ræðum um hér sé ákveðin formbreyting. Ég hefði þá talið að við ættum að sýna þeim sem stóðu að þeim lögum sem sett voru árið 1923 þá virðingu, frú forseti, að vinna þær breytingar almennilega. Ég er á því að stjórnarmeirihlutinn hefði átt að gera það.

Við í minni hlutanum erum að reyna að hafa vit fyrir meiri hlutanum og koma í veg fyrir að þjóðþingið þurfi að hafa skömm af slíkum lagabreytingum. Ég bendi á það eins og ég gerði í 1. umr. og í nefndarstarfinu að ýmislegt í þessu frumvarpi er einfaldlega illa gert. Mér finnst mjög sárt að þurfa aftur við 2. umr. að nefna sömu þætti. Ég hefði helst viljað komast hjá því að fara yfir skilgreiningarnar í frumvarpinu. Ég minntist á það hér við 1. umr. að þær eru með ólíkindum, t.d. hvernig grunnvatn er skilgreint. Sú skilgreining er svohljóðandi:

„Allt vatn neðan jarðar í samfelldu vatnslagi í gegnmettuðum jarðlögum, kyrrstætt eða rennandi, sem er í beinni snertingu við jarðlögin.“

Ég vil bara að fólk íhugi hvernig þetta má vera öðruvísi, að vatn sem er neðan jarðar sé ekki í beinni snertingu við jarðlög. Ég átta mig ekki á því. Þetta hefur verið bent á, bæði við 1. umr., í nefndarstarfi o.s.frv., að það þurfi að fara yfir þessa löggjöf. Nei, ekki skal hlustað á eitt eða neitt. Það er ekki hlustað á bunka athugasemda, sem ég ætla ekki að fara yfir nema að litlu leyti. Mér finnst það mjög sérstakt, í ljósi þess að við erum að breyta lögum sem eru komin til ára sinna og var vandað virkilega til, að við eigum þá að kasta til höndum við lagabreytingarnar. Mér finnst það mjög undarlegt þótt það komi í sjálfu sér ekki á óvart miðað við aðra lagasetningu sem ágætur hæstv. iðnaðarráðherra hefur staðið fyrir.

Fyrir þingið hafa verið lögð frumvörp sem hæstv. ráðherra hefur bara misskilið við frekari umræðu. Síðan hefur hún haldið því fram, t.d. varðandi raforkulög að rafmagn mundi ekki hækka nema lítillega, um hundraðkalla. En þær hækkanir hafa því miður valdið búsifjum í iðnaði og hjá fólki á landsbyggðinni. Þetta er því ekkert einsdæmi. Ég furða mig samt á Sjálfstæðisflokknum að láta teyma sig í þessar ógöngur. Auðvitað sjá þeir að Framsóknarflokkurinn á bágt og vilja að einhverju leyti standa með flokknum þessa dagana. En að ganga svo langt að fara að breyta gömlum lögum með þessum óskapnaði sem við erum að ræða hér finnst mér undarlegt.

Það má vera, frú forseti, að þetta sé að mestu formbreyting sem hér um ræðir og að minna leyti efnisbreyting. Það sem hefur verið deilt um í dag er einkum hvort í breytingunni felist að eignarhald á vatni komist í lög í stað þess sem áður var, þ.e. eignarhalds á vatnsréttindum samkvæmt gildandi lögum. Hversu mikil breyting er það? Það er deiluefnið hér í dag og hefur verið undanfarna daga. Annars vegar er eignarhald á vatnsréttindum og hins vegar eignarhald á vatni, svo að við reynum að kristalla þann ágreining sem verið hefur í þessu máli. Það má vera að munurinn sé óverulegur en við verðum samt sem áður að skoða það í því ljósi að ríkisstjórnin sem hefur verið við völd hefur staðið í ýmsum óhæfuverkum, vil ég segja, frú forseti, t.d. að gera auðlindina í sjónum, fiskimiðin, að einkaeign. Það verður að skoða það í þessu ljósi.

Hér ganga menn þó hreint til verks og segja að þetta eigi að vera einkaeign þeirra sem eiga landskika. Það ber að virða að menn koma þar hreint til dyranna. En hvað varðar fiskveiðiauðlindina er sagt að þetta sé sameign þjóðarinnar þótt báðir flokkarnir, kvótaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vinni skipulega að því að færa þá sameign þjóðarinnar í hendur á einkaaðilum. Ég tel að hefðu þeir komið hreint til dyranna þá hefði þjóðin einfaldlega hafnað þessum flokkum. Ég vona að í næstu kosningum verði þessum flokkum refsað verulega og ég á satt að segja ekki von á öðru.

Ég vil einnig vekja athygli á því að hv. formaður iðnaðarnefndar hefur staðið fyrir ómálefnalegri umræðu. Í staðinn fyrir að ræða þann mun sem er á því annars vegar að vatn sé skilgreint sem einkaeign og hvort vatnsréttindi séu einkaeign hefur hann talað um að þeir sem efist um að eingöngu sé um formbreytingu að ræða heldur ákveðna efnisbreytingu séu jafnvel kommúnistar og ætli að standa fyrir eignaupptöku. Það er náttúrlega af og frá að þeir sem vilja standa fyrir sömu, ég vil segja, íhaldssemi að vatnsréttindi séu skilgreind með sama hætti og gert hefur verið, standi í svona málflutningi. Þetta er ómálefnalegt. Jafnvel hefur verið látið í veðri vaka að það sé verið að ganga á einhvern rétt bænda í landinu.

Ég vil vekja athygli hv. formanns iðnaðarnefndar á því hvað hann hefur gert með umsögn frá bændum, frá Bændasamtökum Íslands. Ég ætla að lesa það. Það er ein af þeim fáu umsögnum sem ég tel vert að vekja athygli á hér í þessari ræðu vegna þess að látið hefur verið í veðri vaka að verið sé að taka eitthvað af bændum. Í umsögn Bændasamtakanna segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið hefur nú verið yfirfarið á nýjan leik og kemur í ljós að athugasemdir Bændasamtakanna hafa verið að engu hafðar. Þær eru því sendar á ný og nefndin vinsamlegast beðin um að íhuga þær vandlega. Sumar athugasemdirnar eru nánast sjálfsagðar, svo sem um skilgreiningu búsþarfa í 3. gr. Það er auðvitað fráleitt í dag að búsþarfir séu einskorðaðar við kvikfjárrækt.“

Hvað gerir fulltrúi Framsóknarflokksins við athugasemdir frá Bændasamtökum Íslands? Það verður að segjast eins og er að hann gerir nákvæmlega ekki neitt með þær. Það hefur ekkert verið gert með það, sem bændur telja algjörlega sjálfsagt, að einskorða ekki skilgreiningu á búsþörfum við kvikfjárrækt. Mér finnst það athyglisvert. Það sýnir að flokkurinn er á rangri leið í stefnu sinni. Hann hefur alla vega algjörlega yfirgefið öll sjónarmið bænda í þessu frumvarpi. Það kemur skýrt fram.

Fleira má nefna hvað þetta varðar. Flokkurinn virðist ekkert gera með sjónarmið dreifbýlisins og bænda. Ég vil nota tækifærið hér og vekja athygli á því, vegna þess að menn hafa verið að tala um einhverja eignaupptöku, að hér hefur verið til umræðu ákveðin eignaupptaka sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa staðið fyrir og er á mörkum þess að standast stjórnarskrá, ég efast um að það standist stjórnarskrá, þ.e. að svipta bændur útræðisrétti sínum. Mér finnst það ákveðin kokhreysti að geta komið í þennan ræðustól og sakað þá sem vilja hafa óbreytta skipan um að ætla að standa fyrir einhverri eignaupptöku og vera síðan sjálfir að svipta bændur útræðisrétti sínum frá strandjörðum sem þeir hafa haft frá ómunatíð. Það mátti lesa mjög fróðlega grein um það málefni í Morgunblaðinu á sunnudaginn eftir Ómar Antonsson frá Horni. Mér finnst það mjög athyglisvert að menn treysti sér til að fullyrða þessa hluti þegar menn eru í svo slæmri stöðu sem raun ber vitni.

Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að þegar ég spurði þann hæstv. ráðherra sem kvaddi hér í dag, Árna Magnússon, um það hvort virða ætti útræðisréttinn þá vafðist honum tunga um tönn. Það var aðallega vegna þess að kvótakerfið virðist svo heilagt hjá Framsóknarflokknum að ef minnsti grunur er um að verið sé að raska því kerfi verða menn mjög hvumsa og fara allir í vörn. Það er ef til vill vegna þess að hæstv. forsætisráðherra virðist eiga einhverra hagsmuna að gæta, hann er enda guðfaðir kerfisins og vill vernda það í einu og öllu, festa það í sessi og helst að flytja það til annarra landa.

Bændasamtök Íslands gera fleiri athugasemdir við þetta frumvarp. Það var ekki eingöngu hve búsþörf er þröngt skilgreind heldur telja bændur að meiri hlutinn á þingi, sem stendur fyrir þessari lagasetningu, sé eitthvað að breyta netlögum. Það er þá liðurinn í því að finna út þennan útræðisrétt strandjarða. Bændur telja líka að meiri hlutinn á þingi skilgreini heimilisþarfir allt of þröngt. Einnig má nefna að menn telja það meginatriði að frumvarpið taki ekki tillit til neins er varðar vatnsmiðlun. Þetta var allt rætt í iðnaðarnefndinni en eftir vandlega íhugun hefur meiri hlutinn í iðnaðarnefnd greinilega komist að því að ekki eigi að gera nokkurn skapaðan hlut með sjónarmið bænda. Mér finnst það athyglisvert. Það vakti athygli mína, sérstaklega í ljósi þess að hv. formaður nefndarinnar var, eins og áður sagði, að væna aðra um kommúnisma og einhverja eignaupptöku.

Ég fullyrti hér að frumvarpið væri mjög illa unnið. Einu rök þeirra sem hafa verið með því að breyta þessum lögum hafa verið þau að verið væri að nútímavæða þennan málaflokk. Jú, ég er tilbúinn að breyta hlutunum til nútímans en ég hefði viljað fá einhver rök þar að baki. Við ræddum það margoft í iðnaðarnefndinni að ef verið væri að nútímavæða þennan lagabálk hefðu menn gefið kost á því að styðjast við hnitakerfi í 11. gr. í stað þess að tala um landamerki með mjög sérkennilegu orðalagi, ég efast um að margir botni í hvað verið er að fara í þeirri grein. Við erum komin fram í árið 2006 og menn eru farnir að merkja hnit mjög nákvæmlega á kort, jafnvel upp á millimetra. Þannig að maður hefði talið að ef verið væri að nútímavæða eitthvað gamalt ætti ekki að sjást setning eins og í 11. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri. Ef eyjar, hólmar eða sker eru í stöðuvatni fylgja þeim netlög sem áður segir. Nú á maður eyjar, hólma eða sker fyrir landi annars manns og er sundið mjórra en 230 metrar og ræður þá miðlína sundsins merkjum. Jafnan skal miða við lágflæði í vatni.“

Þetta er texti sem ég er viss um að margir eiga erfitt með að klóra sig fram úr. Það hefði verið miklu nær að gefa kost á því að nota einfaldlega hnit til að ákveða landamerki. Það er fleira sem kom upp í hugann og menn voru að ræða, vegna þess að það var verið að tína eitt og annað til sem ég ætla kannski ekki að fara mjög nákvæmlega yfir en ég vil t.d. nefna þessar skilgreiningar á mannvirki: Hvers konar manngerð tilfæring, t.d. hús, brú eða virkjun.

Hvað er manngerð tilfæring? Það er nú hús, brú eða virkjun. Mér finnst þetta mjög sérstakt orðlag. Ég hefði talið að þegar menn væru að fara yfir rúmlega áttræð lög ættu þau betra skilið en svona skilgreiningu.

Það hefði þurft að ganga betur frá lausum endum og fara rækilega yfir þetta og segja okkur hvaða vandamál verið væri að leysa. Það hefur ekkert komið fram um það hvers vegna fara þurfi í þessar breytingar. Mér hefði þótt vænt um ef það hefði komið fram. Einu svörin eru: Það er verið að nútímavæða. En nútíminn virðist ekki vera kominn inn í 11. gr. frumvarpsins um landamerki í stöðuvötnum þó svo að hægur vandi hefði verið að setja hnit þar inn. Mönnum liggur svo á að hvorki er hægt að taka tillit til bænda né leiðrétta skilgreiningar sem allir sjá að eru til vansa.

En eins og áður segir virðist þetta frumvarp fyrst og fremst vera nýtingarfrumvarp og ekki taka tillit í einu né neinu til umhverfisins. Þar ræður ríkjum hæstv. iðnaðarráðherra. Það kemur greinilega fram í VII. kafla frumvarpsins að í öllum greinum virðist það vera markmiðið að ef einhver vill ekki nýta vatn, t.d. fara í einhverja virkjun sem hæstv. iðnaðarráðherra er mjög annt um að farið sé í, þá er það viðkvæðið að hæstv. iðnaðarráðherra geti þvingað slíkt fram. Ég get lesið hér til fróðleiks 20. gr., með leyfi forseta:

„Nú vill eigandi annars vatnsbakka merkivatns gera mannvirki í vatni til vatnsnýtingar og þarf að nota til þess land hinum megin og skal hann þá bjóða eiganda þess lands að gera mannvirki með sér og nota vatnið að réttri tiltölu. Nú verða þeir sammála um framangreint, en greinir á um framkvæmd verksins, skiptingu kostnaðar eða vatnsnot, og skal þá skera úr með mati dómkvaddra matsmanna.“

Síðan segir:

„Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið.“

Ef einhverjum dettur í hug að framkvæma eitthvað og meðeigandinn, eða sá sem deilir með honum landi eða landamerkjum, er ekki alveg á því þá er í hverri greininni á fætur annarri kveðið á um að hæstv. iðnaðarráðherra geti kreist mannvirkið fram. Þetta er greinilega allt sniðið að því að iðnaðarráðherra hafi lokaorðið. Það er sem sagt kveðið á um að hægt sé að ná því fram að fara út í framkvæmdir þó svo að eigandinn vilji það ekki. Menn tala um að þetta snúist eingöngu um eitthvert eignarhald og að menn hafi meira sjálfræði en það er ekki svo. Þetta snýst frekar um það að sá sem vill nýta eða virkja hafi lokaorðið en ekki sá sem á land og vill eiga það ósnortið, hann verður samkvæmt þessu frumvarpi alltaf að lúta vilja hæstv. iðnaðarráðherra sem við vitum að er mjög áfram um virkjanir. Það kom hér fram. Hún auglýsir m.a. rafmagn á lægsta verði út um allan heim, þ.e. ef það er til stóriðju. En iðnaðurinn í landinu og íbúar landsbyggðarinnar fá því miður, verð ég að segja, rafmagn á öðrum kjörum en áliðnaðurinn. Það er ákveðið umhugsunarefni.

Fleira má nefna sem mér finnst vert að fara yfir í því frumvarpi sem við ræðum. Ég vil gera að umtalsefni vatnafélögin sem eru að mínu viti algerlega óútfylltur víxill og maður veit í rauninni ekkert hvað þýða. Ég furða mig á því að menn skuli vera með vatnafélög. Það eru fleiri en ég sem furða sig á því vegna þess að fram kom hjá veiðimálastjóra að honum þykja þessi vatnafélög vera mjög laus í reipunum og virðast ekki vera í neinum tengslum við veiðifélög sem ná yfir ákveðið vatnasvið.

Ekki er heldur skylda að vera í þessum vatnafélögum og eftir að hafa farið í gegnum VIII. kafla er ég á því að ef vel ætti að vera ætti að fella hann algerlega úr lögunum. Það má færa mörg rök fyrir því. Meðal annars kemur fram að ekki er ljóst hvert atkvæðamagn þarf að vera og hvort menn fái að vera í félögum. Þetta er allt mjög laust í reipunum og ég verð að segja að það færi miklu betur á því að þessi vatnafélög yrðu bara felld út vegna þess að hlutverk þeirra er mjög illa skilgreint og tengsl þeirra við þau félög sem eru starfandi fyrir í ánum. Þá á ég við veiðifélögin. En í umsögn frá veiðimálastjóra segir, með leyfi forseta:

„Eins og vikið er að í umsögn Landssambands veiðifélaga er nauðsynlegt að skýra frekar lögsögu vatnafélaga, þegar þau starfa innan félagssvæðis veiðifélags og nauðsynlega samráðsskyldu við veiðifélagið.“

Þetta er náttúrlega með ólíkindum að menn skuli ekki hafa tekið tillit til þess í neinu. Reyndar var þetta kannski það eina sem einn af þeim sem voru í stjórnarmeirihlutanum sýndi áhuga, þ.e. laxveiði í tengslum við frumvarpið. Maður hefði haldið að menn hefðu að einhverju leyti tekið tillit til þess áhuga. En það eina sem vikið er að í nefndarálitinu er ein setning:

„Meiri hlutinn telur mikilvægt að þeim sem fara með stjórn veiðimála verði ávallt tilkynnt um framkvæmdir í ám og vötnum sem áhrif hafa á fiskstofna og lífríki þeirra.“

Annað er það ekki.

Greina má í þeim umsögnum sem eru með frumvarpinu að menn hafa virkilegar áhyggjur af þessu og það kemur víða fram. Meðal annars er gerð athugasemd við 18. gr. frumvarpsins þar sem segir:

„Orkunýtingarréttur fasteignareiganda takmarkast við það að enginn sé sviptur vatnsnotum skv. 15. gr. né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun né vatni sem nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að til verulegra óþæginda horfi.“

Hér gerir veiðimálastjóri mjög veigamiklar athugasemdir að ekki skuli vera í einu né neinu vikið að því sem varðar fiskigengd og lífríki ánna. Við megum ekki gleyma því að þetta eru auðlindir eins og aðrar og búa til mikinn auð fyrir þjóðina. Það eru þeir veiðimenn sem koma í árnar og veiða lax og skilja eftir sig mikinn gjaldeyri, en þau sjónarmið eiga að víkja, frú forseti, og eingöngu að vera orkunýtingin í þessu frumvarpi.

Við megum ekki gleyma því heldur að frumvarpið er mjög víðtækt og það kemur fram í 2. gr. þess að það á ekki eingöngu að ná til vatns eins og við skiljum það, heldur einnig í föstu formi þannig að þetta nær til jökla. Þetta nær einnig til loftkennds forms og maður veit ekki hvort þetta nái þá til skýjanna sem fara yfir viðkomandi landsvæði, eða hvað vakir fyrir frumvarpshöfundum með því að hafa þetta svo. En greinilegt er að markmiðið með þessu er að menn vilja ná alveg örugglega öllu og engu á að sleppa. Það er greinilega markmiðið þó að það sé mjög sérstakt að tilgreina eitthvað sem vart kemur málinu við.

Að lokum hefði ég talið fróðlegt fyrir umræðuna í dag að hv. formaður iðnaðarnefndar hefði verið til svara í meiri mæli. Til dæmis komu frá hv. ræðumanni sem talaði á undan mér mjög athyglisverðar athugasemdir þar sem vakin var athygli á að grunur léki á að frumvarpið stangaðist á við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og var vitnað m.a. í samþykkt norrænna ráðherra. Það hefði verið fróðlegt ef hv. þingmaður og formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, brygðist að einhverju leyti við þeim athugasemdum. Það hefði verið fróðlegt að vita það og ef hann hefur ekki kynnt sér það að það kæmi þá fram síðar í umræðunni hvort svo væri eða ekki, og afstaða hans, því að það er náttúrlega rétt að svara því þegar verið er að afgreiða frumvarp hvort menn séu að einhverju leyti að fara á svig við alþjóðaskuldbindingar, frú forseti. Mér finnst í rauninni ekki hægt að láta málið frá sér að öðru leyti en svara þeim athugasemdum sem komu hér fyrr í kvöld frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Það er fleira sem vekur athygli og vafi leikur á sem kom fram reyndar í nefndarstarfinu. Það er umsögn um frumvarpið frá fjármálaráðuneytinu sem hefur ekki verið til umræðu í dag eða fyrr í umræðunni sem mér finnst rétt að vekja athygli á, sérstaklega fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er lokasetningin á þessu 46 blaðsíðna skjali:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.“

Menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það að frumvarpið mun hafa verulegan kostnað í för með sér fyrir Orkustofnun. Hún er að fá viðamikið hlutverk í þessum málaflokki, eftirlitshlutverk og stjórnsýsluhlutverk. Allt kostar þetta og mun örugglega verða liður í því að þenja enn frekar út ríkisútgjöldin sem hafa þanist alveg gríðarlega á síðustu árum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd með Framsóknarflokknum. Það er eins og þeir magni upp eyðslufíknina hjá hvor öðrum, ef svo má að orði komast, en ríkisútgjöld hafa hækkað um 120 milljarða á föstu verðlagi sem eru gríðarlega háar upphæðir. Mér finnst í rauninni að fjármálaráðuneytið ætti að vinna betur þegar verið er að fara með svona frumvarp í gegn, og ekki í fyrsta sinn, þetta er í annað sinn sem reynt er að koma frumvarpinu í gegnum þingið. Síðast sáu menn að sér og maður vonast til að menn sjái að sér enn á ný og hlusti á stjórnarandstöðuna þó svo þeir séu greinilega orðnir of stórir karlar til að hlusta á forustumenn bænda, stjórnarflokkarnir, framsóknar- og sjálfstæðismenn, að þeir taka í engu tillit til athugasemda þeirra, taka í engu tilliti til athugasemda veiðimanna, taka í engu tillit til athugasemda stofnana umhverfisins, taka í engu tilliti til, ég vil segja neinna athugasemda. Ég veit í rauninni ekki hvað þeim gengur til, hvers vegna menn eru þá að óska eftir því að menn sendi inn athugasemdir og gera síðan ekkert með þær. Mér finnst það vera umhugsunarefni.

Frú forseti. Þegar menn fara í gegnum svona lagasetningu væri sanngjarnt gagnvart þeim sem senda inn umsagnir að stjórnarmeirihlutinn færi í gegnum þær að einhverju leyti og segði okkur hvers vegna ekki er tekið tillit til bænda, umhverfisins og laxveiðimanna. Það hefði verið fróðlegt í umræðunni. Það er í rauninni, ég vil segja ákveðin kurteisi fólgin í því að vera ekki að óska eftir því að menn sendi inn umsagnir og taka síðan í engu tillit til þeirra og gera í rauninni ekkert með þær. En það er aldrei að vita. Menn verða að treysta á að menn sjái að sér. Það gerðist um jólin að menn tóku tillit til þess sem stjórnarandstaðan hafði fram að færa og það er aldrei að vita nema hæstv. iðnaðarráðherra sjái enn á ný að sér. Ég vonast til að bændur og laxveiðimenn þrýsti á um að svo verði því hér er í rauninni verið að setja lög sem eru illa úr garði gerð, þ.e. frumvarpið.

Ég er á því að við skuldum þeim sem settu þau lög sem hafa staðist tímans tönn betri vinnubrögð og einnig málaflokknum. Vatn er auðlind sem er ekki hægt að virða til fjár vil ég segja og sem betur fer búum við svo vel að nægilegt er af henni. Ég vonast til þess að menn hugsi málið betur, taki tillit til þeirra umsagna sem hafa fram komið og breyti þessu frumvarpi að minnsta kosti, frú forseti.