135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu.

363. mál
[14:47]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra rakti ekki niðurstöður þeirrar könnunar sem báðir hv. þingmenn, hæstv. ráðherra og hv. þm. Ásta Möller, nefndu, en það er ný könnun á viðhorfi til þjónustu á heilsugæslunni.

Fram kom í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu að í október 2007 hefði verið unnin skýrsla sem lægi fyrir í drögum í heilbrigðisráðuneytinu. Ég hlýt að kalla eftir því hvar hún sé stödd og hvort hún eigi að vera einkamál í Sjálfstæðisflokknum eða hvort aðrir óæðri fái að líta á hana.

Ég vil minna á að fyrir liggur þingsályktunartillaga okkar vinstri grænna um að gera úttekt á því hver árangur af einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni sé. Ég hlýt að kalla eftir því, þegar menn ræða þau mál sem hér (Forseti hringir.) eru á dagskrá, að litið sé til allra hliða málsins, (Forseti hringir.) líka þeirra sem þar eru raktar.