138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

aðild að Evrópusambandinu.

[15:11]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um aðild að Evrópusambandinu. Í síðustu viku var stödd hér á landi Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins. Í samtali við fjölmiðla sagði hún að þjóð eins og Íslendingar sem glímir við efnahagsvanda mætti ekki líta á inngöngu í Evrópusambandið sem einhverja skyndilausn. Því til staðfestu nefndi hún Grikkland sem dæmi um að hvorki evran né ESB væri töfralausn á efnahagsvanda þjóða.

Það var einnig ágætisáminning frá varaforsetanum að skynsamlegt sé fyrir ríkisstjórnina að fara sér að engu óðslega í aðildarviðræðum og að mikilvægt sé að sátt sé um málið meðal íslensku þjóðarinnar.

Íslenska þjóðin er fyrir löngu búin að átta sig á því að ESB-aðild er ekki sú töfralausn sem ríkisstjórnin hefur haldið fram og ljóst er að þær kannanir sem hafa verið gerðar benda til þess að mikill meiri hluti þjóðarinnar er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Samtök iðnaðarins hafa t.d. látið gera könnun sem sýnir mikla andstöðu, Samtök atvinnulífsins hafa nýlega birt könnun meðal atvinnurekenda sem sýnir að 60% þeirra eru á móti aðild og þekkt er andstaða hagsmunaaðila í landbúnaði og sjávarútvegi. Enn fremur er kunn staða margra stjórnarliða úr röðum Vinstri grænna og skemmst er að minnast ummæla hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að hann hefði aldrei verið andvígari en einmitt nú. Einkar athyglisvert var er hann sagði, með leyfi forseta:

„Skrifræðisbáknið í Brussel er óseðjandi ófreskja.“

Af framansögðu er ljóst að vafi leikur á meiri hluta fyrir málinu á þingi og því eðlilegt að velta fyrir sér hvort nú sé ekki rétti tíminn til að endurskoða málið svo ekki myndist hin nafntogaða gjá milli þings og þjóðar. Mig langar því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort til greina komi í ljósi þessarar andstöðu almennings og þingmanna (Forseti hringir.) að draga umsóknina til baka og spara með því gríðarlega fjármuni sem gætu nýst í atvinnuuppbyggingu og velferðarþjónustu.