138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:59]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum með til umfjöllunar frumvarp hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu. Það felur í sér heimild gerðarþola til 31. ágúst á þessu ári til að óska eftir frestun í allt að þrjá mánuði hjá sýslumanni um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði.

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en að verða við þessari beiðni um frestun þar sem fyrir liggur að ekki hafa allir þeir sem í vanda eru staddir fengið tilhlýðilega lausn á vandanum. Úrræði og aðgerðir stjórnvalda og fjármálastofnana hafa leyst einhvern hluta vandans en þó alls ekki allan og nauðsynlegt er að næstu skref verði tekin í að leysa vanda heimilanna. Samkvæmt könnun ASÍ telja 80% þeirra sem tóku þátt að úrræðin sem nú eru til staðar dugi ekki. Það er nokkuð sem við getum ekki sætt okkur við.

Þetta frumvarp er staðfesting þess að ekki hefur tekist að leysa vanda heimilanna, að ég tali ekki um hina margumræddu skjaldborg um heimilin líkt og stjórnvöld voru m.a. kosin til að gera. Greiðsluvandaúrræðin komu of seint og bið er á frekari úrræðum. Það er nauðsynlegt að heimilin fái frest til að leysa úr vandamálum sínum og því er þessi frestur á nauðungarsölu nauðsynlegur. Vandinn fer vaxandi og staðan versnar. Við sem hér erum vitum öll að þessi frestur leysir engan vanda. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá öðrum hv. þingmönnum um að þetta er ekki lausnin á vandanum og að við verðum að grípa til frekari úrræða. Það er lykilatriði að menn vinni saman að þessu til að hægt sé að koma þessu til framkvæmda. Ég veit að fyrir þinginu liggja m.a. nokkur frumvörp frá þingmönnum sem miða í þá átt að einfalda málið og hjálpa fólki við að leysa þennan vanda.

Virðulegi forseti. Við hljótum að þurfa að skoða þær aðferðir sem beitt er við að einfalda vanda heimilanna. Einn maður í Héraðsdómi Reykjavíkur vinnur við það að samþykkja eða synja beiðni heimilanna um greiðsluaðlögun. Þúsundir umsókna liggja þar á borðinu og við getum ekki látið fólk bíða á línunni eftir svari um hvort beiðni þess verður samþykkt eða henni hafnað á meðan einn maður vinnur. Við verðum að taka á vandanum strax.

Ég ætla að greiða atkvæði með þessu frumvarpi dómsmálaráðherra því að þetta er eina leiðin, heimilin eiga það inni hjá okkur að þau fái lengri frest því að úrræðin komu seint.