138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þær eignir sem þegar er búið að bjóða upp, sem sagt uppboði er lokið og búið að framkvæma nauðungarsöluna, þá er ekki í þessu ákvæði neitt tekið á því. Ég mundi mælast til þess að það sé eitt af því sem allsherjarnefnd skoði í framhaldinu. En við þurfum líka að bíða niðurstöðu Hæstaréttar varðandi þennan dóm.

Varðandi þá sem eru í ferlinu er í seinni hluta ákvæðisins talað um að uppboði hafi ekki verið lokið þó að ferlið sé byrjað, það tekur á því. En varðandi þær eignir sem þegar er búið að ganga að — við höfum heyrt mikla óánægju varðandi þá sem eru með bílalánasamninga, þegar verið er að taka bílana af þeim, verið að bæta alls konar gjöldum ofan á, verið að lækka verðmæti bílanna, eins og talað er um nánast að engu, og síðan eru þeir krafðir um það sem vantar upp á. Ég sé ekki að þetta frumvarp taki á því. Ég tel mjög mikilvægt að allsherjarnefnd fjalli um þetta og ég mundi telja að þetta væri líka eitt af því sem þessi þverpólitíska nefnd, sem starfar varðandi skuldir heimilanna og þennan vanda, skoði þetta líka sérstaklega upp á hvaða úrræði eru möguleg. Þá tengist það náttúrlega því sem ég er að vísa hérna til að það er hugsanleg skaðabótaábyrgð. Við sjáum ekki endilega fram á endalok málaferlanna þó að Hæstiréttur staðfesti þetta. Það skiptir því máli að ríkisstjórnin reyni að skoða þetta eins heildstætt og hægt er og við hér á Alþingi beitum okkur eins og við getum mögulega í nefndum og í starfi þingsins.