138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[18:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála vegna gengistryggðra lána. Er þetta eitt af nokkrum málum sem við ræðum hér í dag, sem öll eru þess eðlis að þau taka á ákveðnum vanda sem komið hefur upp skyndilega og menn þurfa að leysa dálítið hratt. Ég skora á hv. nefnd að vinna þetta mál hratt og horfa ekki endilega á hver er 1. flutningsmaður málsins heldur hvað málið er gott. Það virðist vera þannig að stundum er horft á flutningsmennina og ef þeir eru ekki í réttum flokki er málið ekki gott í hugum sumra.

Það var ákveðinn forsendubrestur varðandi gengistryggðu lánin. Maður spyr sig náttúrlega fyrst, frú forseti: Af hverju tóku menn gengistryggð lán í íslensku þjóðfélagi? Flestir voru með tekjur í íslenskum krónum. Hvers vegna voru þeir að taka áhættu af því að taka lán í annarri mynt en þeir höfðu tekjur í? Það er náttúrlega vegna þess að vextirnir voru miklu lægri. Af hverju voru vextirnir miklu lægri? Það er vegna þess að Íslendingar hafa ekki viljað spara í lengri, lengri tíma. Það eru svo fáir sem spara og margir sem vilja taka lán, þess vegna eru vextir háir á Íslandi. Þessu er öðruvísi farið í útlandinu, þar eru vextir lágir vegna þess að margir spara og tiltölulega fáir vilja taka lán. Þetta er nú skýringin. Menn geta flokkað það undir græðgi eða hvað sem þeir vilja, að vilja hlaupa eftir lágum vöxtum, en þetta er nú staðreyndin.

Svo standa menn uppi með það núna að þessi áhætta er skollin á og héraðsdómur hefur fellt tvær mismunandi niðurstöður. Mér finnst mjög brýnt að fá úr því skorið hratt og vel hvernig málin standa. Kemur spurningin „hvað gerist í kjölfarið“? Hvernig dæmir Hæstiréttur í þessu máli? Dæmir hann vextina óbreytta, liborvexti sem oft voru alveg svakalega lágir, í íslenskum krónum? Eða verður þetta verðtryggt? Hvað gerir hann við þetta lán? Hver er niðurstaðan úr svona málaferlum? Það liggur ekki einu sinni fyrir.

Svo kemur það versta í þessu. Það er tilviljunarréttlæti, vil ég kalla það, þar sem algjör tilviljun ræður því hvar menn lenda. Maður keypti sér fallega jeppann sem hann hafði alltaf dreymt um og gat keypt hann með miklum lánum með lágum vöxtum. Hann gerði samning, skrifaði undir eitthvert plagg, en samningurinn er gagnkvæmur. Þetta er tvíhliða samningur milli tveggja aðila. Það var alveg undir hælinn lagt hvernig orðalagið á samningnum var. Það gat verið þannig að það stóð að maðurinn hefði keypt jeppa fyrir 7 milljónir og fengið lán upp á 7 milljónir og það var talað um 7 milljónir kr. Svo getur verið að einhver annar hafi tekið lán, jafnvel hjá sama fyrirtæki eða öðru fyrirtæki, og þar stóð ekki 7 milljónir kr. heldur einhverjar hundruð þúsundir evra. Það var allt í einu orðið löglegt vegna þess að samkvæmt EES-samningnum er ekki bannað að taka lán á Íslandi í erlendri mynt. Hins vegar má færa það í lög að það sé bannað og það er það sem héraðsdómur komst að niðurstöðu um í öðru málinu, að það sé bannað að verðtryggja miðað við erlenda mynt. Þá gerist það að tveir menn kaupa nákvæmlega sömu tegundina af jeppa með nákvæmlega jafnháu láni, annar þarf að fara að borga tvöfalt, þrefalt til baka, hinn ekki. Það er þetta tilviljunarréttlæti sem maður eins og ég sætti mig eiginlega mjög illa við.

Auðvitað hefði maður viljað að menn hefðu fundið einhverja skynsamlega og réttláta lausn á þessu öllu saman. En það hefði þurft að finnast miklu fyrr því að nú er sá sem nýtur þessa tilviljunarréttlætis og græðir á öllu saman með því að borga lán með lágum vöxtum, sem enginn fær á Íslandi ef það verður niðurstaðan, verður ekki tilbúinn að gefa þetta eftir, á meðan hinn vinur hans sem lenti af tilviljun í því að skrifa undir öðruvísi lánasamning, verður jafnvel gjaldþrota eða að bíllinn verður þvílíkur myllusteinn um hálsinn á honum.

Maður hefði náttúrlega viljað að þetta yrði leyst einhvern veginn almennt, að í þjóðfélaginu yrði sátt um að þetta verði leyst með gerðardómi eða einhverju slíku. Ég sé alveg fyrir mér að menn hefðu getað breytt þessum lánum frá lántökudegi í verðtryggð lán, með venjulegum hefðbundnum vöxtum, plús eitthvert álag fyrir að fá að breyta. Ég get alveg séð fyrir mér t.d. 3% álag fyrir að fá að breyta, eða eina milljón í breytingarkostnað. Það er heldur ekki hægt að láta menn fá verðtryggt lán án nokkurs breytingarkostnaðar því að þá er verið að verðlauna þá af því að þeir tóku sénsinn á að taka lán með lágum vöxtum. Svo allt í einu eru þeir komnir með lán eins og sá tók sem ekki tók sénsinn. Það hefði því þurft að vera einhver breytingarkostnaður.

Nú held ég að við séum komin fram hjá þeim tímapunkti og þessi dómur segir að menn geti ekki fundið réttlætisnefnd í þessu máli. Það er ekki hægt að finna eitthvert réttlæti þar sem menn gætu með sanngirni sagt: Þetta er sanngjarnt og réttlátt. Því miður. Það má segja að bæði þingmenn og stjórnvöld hafi sofið á verðinum hvað þetta varðar. Það hlaut náttúrlega að koma að þessu. Maður sendi mér tölvupóst um daginn, hann keypti sér einbýlishús á 40 milljónir, þ.e. lánið var 40 milljónir en er nú komið upp í 140 milljónir. Hann keypti líka jeppa, þar voru hlutföllin eitthvað svipuð, lánið tvöfaldaðist ekki bara, það nánast þrefaldaðist. Þetta er náttúrlega vandi sem er nánast óviðráðanlegur fyrir venjulegar fjölskyldur og hefði átt að leysa miklu fyrr. En þetta er hluti af því að við höfum sofið á verðinum. Við höfum verið að dunda okkur við að breyta lögum um Seðlabanka og sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Og Icesave er búið að taka ógurlegan tíma — sem betur fer, segi ég nú bara. Ég segi nú bara góðan daginn, frú forseti, því að hver dagur sem Icesave dregst er góður dagur. Það er greinilegt að aðstaða okkar og samningsstaða eru alltaf að batna.

En varðandi þetta frumvarp tel ég mjög brýnt að fá úr þessu skorið sem allra fyrst. Þótt menn hafi þrískiptingu valdsins þar sem dómstólar eiga að vera sjálfstæðir, óháðir framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu — og við erum einmitt að brjóta regluna — held ég að það sé ekki mjög alvarlegt brot á þrískiptingu valdsins og ekkert í námunda við það sem við vorum að tala um hér fyrr í dag. Þar talaði ég um að réttarríkið væri jafnvel farið að bresta þegar menn breyttu forsendum aftur í tímann. Ég tel að það sé í lagi og að dómsvaldið muni nú fyrirgefa hæstv. löggjafarvaldi.