138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Í framhaldi af henni vil ég taka á nokkrum atriðum. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp tekur ekki, eins og kom fram í orðum hv. þm. Péturs Blöndals, á efnisatriðum dómanna. Við förum ekki að neinu leyti í lög um vexti og verðtryggingu heldur varðar þetta málsmeðferðina.

Enn á ný, punktur nr. 2, get ég ekki séð að um neina afturvirkni sé að ræða t.d. varðandi bráðabirgðaákvæði um nauðungarsöluna eins og það er orðað. Þótt við höfum rætt það aðeins, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og ég, er það eitthvað sem þyrfti að taka á annars staðar en með því að við setjum inn einhver afturvirk ákvæði í lög frá Alþingi. Ég tel reyndar að við eigum alls ekki að skila frá okkur þess háttar lögum.

Ég vona svo sannarlega að það muni ekki skipta máli í meðferð málsins hjá allsherjarnefnd hvaða flokki 1. flutningsmaður þess tilheyrir. Ef svo er tel ég þetta skipta það miklu máli að ég mundi ekki gera neina athugasemd við það þótt þessar tillögur yrðu settar fram sem breytingartillögur við mál hæstv. dómsmálaráðherra um nauðungarsölur, ég tel að það væri einfalt mál fyrir allsherjarnefnd að bæta því við.

En ef við horfum á mál hv. þm. Helga Hjörvars held ég að það sé eitthvað sem er almennt sátt um í þinginu. Ég held að það hafi líka margítrekað komið fram í máli fylgismanna og þingmanna þeirra flokka sem fara með völdin núna að þegar þeir voru í stjórnarandstöðu sluppu sjaldnast nein þingmannamál í gegn og það var eitthvað sem þeir vildu gjarnan sjá breytast. Ég vona svo sannarlega að á þessu þingi sjáum við einhver þingmannamál fara í gegn. Þótt það verði kannski ekki þetta getur vel verið að það verði eitthvert annað mál.

Ég er mjög ánægð með að hæstv. dómsmálaráðherra skuli hafa setið hér í gegnum umræðuna í allan dag. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um hálfgerða réttlætisnefnd. Ég held að það sé kannski það sem talsmaður neytenda lagði upp með þegar hann kom með tillögur sínar um gerðardóm, að við verðum að komast að einhverri niðurstöðu þar sem við sem ábyrgir stjórnmálamenn segjum: Þetta er það sem við höfum svigrúm til að gera. Þetta er það sem við getum gert fyrir þennan hóp lántakenda sem er í miklum vandræðum. Við sjáum ekki fram á að þeir geti nokkurn tímann komist út úr þeim skuldum sem þeir sitja uppi með núna. Þennan hóp verður því miður mun minna hægt að gera eitthvað fyrir.

Svo verðum við líka, eins og við framsóknarmenn höfum alltaf talað fyrir, að horfa á aðgerðir sem varða efnahagslífið í heildina. Tillaga okkar um 20% niðurfærslu á öllum lánum var alltaf hugsuð fyrst og fremst sem efnahagsaðgerð til þess að koma efnahagslífinu aftur af stað en við gerðum okkur grein fyrir því að það mundi engan veginn duga til fyrir þá sem verst voru staddir, það þyrfti meira til.

Að lokum vil ég gjarnan að þetta mál fari sem fyrst til allsherjarnefndar og að það verði unnið þar hratt og vel.