139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[11:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að fá að bætast hér í þann hamingjukór sem syngur úr ræðustólnum til menntamálaráðherra í dag og full ástæða til að fagna því máli sem hér er mælt fyrir. Að mörgu leyti er ótrúlegt til þess að hugsa hversu lítinn sess íslensk tunga á í stjórnarskrá og löggjöf, eins og hér hefur verið farið yfir, jafnríkur þáttur og hún var í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og allri hennar pólitísku baráttu. Þó að hér sé stigið skrefið gagnvart löggjöfinni er um leið mikilvægt að sú vinna við stjórnarskrána, sem með einum eða öðrum hætti verður hafin á næstunni, taki sömuleiðis til umfjöllunar stöðu tungunnar í grundvallarlöggjöfinni, sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins.

Það var orðað hér áðan, um þann þátt sem snýr að táknmálinu, að fallegar yfirlýsingar nægðu ekki heldur yrðu líka að fylgja verk og fjármunir til þeirrar forgangsröðunar sem löggjöfin á að lýsa. Það á sannarlega líka við um það sem snýr að íslenskri tungu, því tungumáli sem við tölum. Á þeim vettvangi þurfum við ekki aðeins að styrkja lagarammann heldur einnig að láta forgangsröðun og fjármuni fylgja þeim fögru orðum sem við gjarnan höfum um íslenska tungu.

Í samfélagi okkar og alls staðar í heiminum á ör tækniþróun sér stað á hverjum degi. Í því sambandi er gríðarlega mikilvægt fyrir lítið málsvæði eins og okkar að við notum almannafé til þess að þróa tungutækni. Ýmiss konar tæknibúnaður er í örri þróun, tæknibúnaður sem talar við notendur og sem notendur tala við. Bæði í störfum manna og í leikjum barna og unglinga líta nýjar afurðir dagsins ljós á hverju missiri, liggur mér við að segja.

Við munum sumpart standa frammi fyrir þessari spurningu: Ætlum við að kosta til þeim fjármunum sem þarf til að fylgjast með í þeirri tækni? Á markað eru að koma vörur sem fólk kaupir til að nota, vörur sem tala og sem í ríkara mæli verður talað við og sá búnaður talar ekki íslensku. Nýjustu útgáfur af vinsælum farsímum, ýmiss konar leikjum og öðru slíku, tala ensku og önnur slík tungumál sem byggja á stórum málsvæðum. Slík tæki munu ekki tala íslensku nema við leggjum þá fjármuni til þróunar á tungutækni hér á þinginu sem þarf til að íslenskan verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins, í hinu daglega starfi og í leik. Það á því ekki bara við um táknmálið að fé þurfi að fylgja forgangsröðun heldur á það líka við um íslenska tungu.

Við eigum líka að líta í eigin barm. Það var ágæt áminning frá formanni menntamálanefndar, hv. þm. Skúla Helgasyni, um það orðfæri sem á köflum er á þeim lagatexta sem lagður er fyrir þingið og frá þinginu fer. Við höfum nú sérstaklega sett upp skrifstofu undir forsætisráðuneytinu til að vinna að því að vanda betur og samræma smíði lagafrumvarpa. Það er þá sérstakt íhugunarefni hvort við þurfum ekki að gera sérstakar ráðstafanir til þess beinlínis að huga að tungumálinu og notkun þess í þeim textum sem koma fyrir þingið og fara frá þinginu. Þeir eiga auðvitað að vera á einfaldri, skýrri og skiljanlegri íslensku því að sá lagatexti er náttúrlega fyrir almenning til þess að fara eftir og nauðsynlegt að hann skiljist vel.

Það er um leið rétt, og því er haldið til haga, að það skiptir máli að við fylgjum þróuninni hvað varðar íslenska tungu að auðvitað er stærsta framfaraskrefið í þessu máli það sem snýr að heyrnarlausum og að táknmálinu. Það hefur lengi verið til vansa hversu takmarkaðan aðgang heyrnarlausir hafa haft að samfélaginu vegna þeirrar stöðu sem táknmálið hefur haft. Það er alveg ljóst að við þurfum að láta fé fylgja því ef við ætlum að lögfesta táknmálið með þessum hætti og við þurfum þess kannski enn frekar á samdráttartímum eins og nú eru. Oft og tíðum höfum við kannski viljað treysta á það að opinberar stofnanir og einkafyrirtæki vilji af góðum hug og góðum vilja fylgja eftir almennum markmiðssetningum um það „að allir eigi að njóta“ eða „að allir eigi að hafa aðgang að“. Tilfellið er að slíkar almennar yfirlýsingar, um „að allir eigi að hafa aðgang að“, þær kosta. Á tímum samdráttar í opinberum útgjöldum og á tímum samdráttar í efnahagsstarfseminni í landinu yfir höfuð dregur mjög úr vilja, bæði opinberra stofnana og einkafyrirtækja, til þess að verja fjármunum í þágu almennra mannréttinda eins og „aðgengis fyrir alla“. Það hygg ég að margir hópar fatlaðra hafi fundið á undanförnum missirum og ég held að umræðurnar, til að mynda um heimasíðu Hæstaréttar Íslands, séu ágætt dæmi um það bara frá síðustu vikum. Það er mikilvægt að við höfum þrek til þess hér að ekki bara lögfesta almennar viljayfirlýsingar heldur láta forgangsröðun og löggjöf alla fylgja því — um leið og ástæða er til að fagna því að þetta skref sé stigið og að sjálfsögðu að óska heyrnarlausum og hæstv. ráðherra hjartanlega til hamingju með þennan áfanga.

Ég vildi að síðustu bara beina því til hv. menntamálanefndar að það gæti verið ágætt tilefni til þess við þetta tækifæri að líta líka til stöðu blindraletursins, sem er auðvitað það letur sem lítill hópur Íslendinga styðst við. Staðreyndin er nú sú að sá hópur er miklum mun minni en bæði fjöldi Íslendinga og fjöldi blindra og sjónskertra gefur tilefni til að ætla og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að kennslu og aðbúnaði að íslenska blindraletrinu hefur kannski, líkt og með táknmálið, verið háttað af slíkum vanefnum að hér hafa ákaflega fáir lært blindraletur sér til gagns með þeim afleiðingum að fjöldi blindra og sjónskertra er í raun og veru ólæsir. En ólæsi er auðvitað nokkuð sem við höfum aldrei viðurkennt að finnist í okkar ágæta samfélagi.