139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:10]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem snýr að því að heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Þetta er hið besta mál sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er flutningsmaður að og ýmsir fleiri og ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Ég hefði svo sannarlega getað skrifað upp á þessa tillögu líka, hún er mjög góð. Ég trúi því og treysti á meðan ég ræði þessa tillögu hér að hún fái góða meðferð í efnahags- og skattanefnd. Ég er viss um að undir forsæti hv. þm. Helga Hjörvars í þeirri nefnd fær tillagan slíka meðferð. Jafnframt vil ég lýsa því yfir fyrir hönd iðnaðarnefndar að við erum tilbúin að koma að því líka og veita umsögn um þetta lagafrumvarp. Ég vitna þá til góðrar samvinnu þessara tveggja nefnda, þ.e. efnahags- og skattanefndar og iðnaðarnefndar, fyrir jól þegar okkur tókst í sameiningu að gera þær betrumbætur sem þurfti að gera á skattkerfinu gagnvart netþjónabúum og rekstri þeirra á Íslandi. Á elleftu stundu tókst okkur að búa til skattkerfi sem er sambærilegt við það sem er í Evrópu þannig að við þurftum ekki að sjá á eftir netþjónabúunum og að þau hættu við. Því segi ég að frumvarpið sem er til umræðu er stórt atriði í því samhengi sem hér er verið að tala um, þ.e. húshitunarkostnað, sérstaklega úti á landi og alveg sérstaklega í dreifbýli.

Það er auðvitað ekki hægt, virðulegi forseti, að búa við það öllu lengur og hefur reyndar aldrei verið hægt að búa við það að sá húshitunarkostnaður sem leggst á íbúa úti á landi sé svona hár eins og þarna er gert ráð fyrir og hann hefur verið að hækka mikið undanfarið. Hér er sagt að það kosti í kringum 238 þús. kr. á ári eða um 20 þús. kr. á mánuði að hita 180 fermetra einbýlishús í dreifbýli meðan það kostar 93 þús. kr. ári eða 8 þús. kr. á mánuði á svæði Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er mismunur upp á 12 þús. kr. á mánuði, virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim atriðum sem landsbyggðarbúar þurfa að búa við og það ójafnrétti sem þeir búa við.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að ekki er hægt að reisa hitaveitu í hverju byggðarlagi eða hverju þorpi, sums staðar er einfaldlega ekki heitt vatn að fá, og í seinni tíð hefur auðvitað verið mjög dýrt að bora eftir vatni og opna hitaveitur þannig að kostnaður hefur ekki lækkað. Þess vegna verður samfélagið að koma til móts við íbúa þessara svæða með niðurgreiðslum þar sem fært er til með aðstoð skattkerfisins til að jafna þennan mun. Þegar ég segi að jafna þennan mun, virðulegi forseti, hef ég alltaf sagt að ef menn vilja jafna atkvæðavægi á Íslandi og gera landið að einu kjördæmi þá sé ég alveg til í það ef allt annað verður jafnað í leiðinni.

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við það frumvarp sem hér er lagt fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) og eins þá þingsályktunartillögu sem hér hefur verið lögð fram um að skipa nefnd til að móta tillögur að lækkun húshitunarkostnaðar sem ég er flutningsmaður að ásamt hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, sem er 1. flutningsmaður, og mörgum öðrum. Sú tillaga mun koma til iðnaðarnefndar og ég mun taka hana fljótt og vel til afgreiðslu þar og skoðunar en vil jafnframt segja að unnin hefur verið ákveðin forvinna hvað það varðar vegna þess að það er nefnd í gangi varðandi garðyrkjuna og þann aðstöðumun sem er milli garðyrkjubænda og þess kostnaðar sem þar er ef garðyrkjubændur starfa í dreifbýli sem oft er. Þar er himinhár munur á milli sem hefur m.a. gert það að verkum, virðulegi forseti, vegna hás raforkukostnaðar, að þessi framleiðsla hefur minnkað í landinu sem hefur það í för með sér að við þurfum að flytja meira inn af grænmeti í staðinn. Það er náttúrlega ótækt á þeim tíma þegar land og þjóð þarf að gera hvað mest af því að safna gjaldeyri í landinu og passa upp á þann gjaldeyri sem við fáum fyrir útflutningsvörur okkar að við eyðum honum í grænmeti sem jafnvel er flogið með frá Suður-Afríku og ég veit ekki hvaðan til Íslands með ærnum tilkostnaði. Sú tillaga sem hér er lögð fram er góð, ég vil trúa því, en því miður gafst okkur ekki tækifæri til þess núna vegna þess að við vorum með opið raforkulagafrumvarp, og höfum verið með það opið út af öðru, en það var skoðað af mér og öðrum í nefndinni hvort við gætum beðið með það gagnvart húshitunarkostnaði og raforkukostnaði í dreifbýli. Við töldum okkur ekki geta það vegna þess hve lá á aðalatriðunum sem voru í því frumvarpi, en frumvarpið var afgreitt við 2. umr. í morgun og bíður 3. umr. og lokaafgreiðslu.

Ég vil trúa því að okkur takist að setja þessa vinnu í gang en sú vinna á ekki að verða til þess að skila enn einni skýrslunni. Sú vinna á að fara í það að skoða hvernig hægt er að lækka þennan kostnað og kannski alveg sérstaklega hvort við eigum að breyta viðmiðinu um 200 íbúa í dreifbýli sem virðist skipta öllu í þessum málum.

Þá kem ég að því, virðulegi forseti, sem mér fannst vera svona hið ómálefnalega í þessari umræðu sem gerðist áðan þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, fór að tala um hækkun húshitunarkostnaðar sem ég hef líka gert að umtalsefni hér. Virðulegi forseti. Það hefur aldrei þótt góður siður að kasta steinum úr glerhúsi búandi í glerhúsi. Það er nefnilega þannig að þegar verið er að tala um þessa miklu hækkun húshitunarkostnaðar þá á slíkt við frá árinu 2000. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að frá árinu 2000 til ársins 2007 var það verkefni Framsóknarflokksins í iðnaðarráðuneytinu, algjörlega einn og óvaldaður og þurfti enga aðstoð við að klúðra þeim málum sem þar var klúðrað hvað þetta varðar.

Raforkutilskipunin, sem er sennilega upphafið að allri þessari vitleysu og við þurftum ekki að taka upp hér eftir á að hyggja, var verkefni Framsóknarflokksins. (BJJ: … undir lokin?) Samþykkt af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og ýmsum fleirum sem þar komu með vegna þess að þáverandi iðnaðarráðherra taldi það ekki vera hægt. Eftir það hefur komið í ljós að það var enginn vandi að fá undanþágu frá raforkutilskipuninni ef aðeins undirbúningsvinnan hefði verið unnin. Það var ekki gert.

Þannig er það, virðulegi forseti, að þetta er að stórum hluta verkefni Framsóknarflokksins. Ég sat í iðnaðarnefnd þegar þetta var gert. Ég man eftir því þegar sendiboðar komu úr iðnaðarráðuneytinu og flögguðu einhverjum 200 milljónum sem átti að setja þá fyrst inn sem síðan áttu að vaxa og vaxa til þess að niðurgreiða hækkandi húshitunarkostnað í dreifbýli.

Virðulegi forseti. Sú upphæð var aldrei hækkuð í tíð (BJJ: Ha?) Framsóknarflokksins. Þær rúmlega 200 milljónir sem settar voru til niðurgreiðslu húshitunar í dreifbýli hafa ekki verið hækkaðar, þær hafa lækkað ef eitthvað er. Þær hækkuðu ekki í tíð Framsóknarflokksins svo það sé bara haft á hreinu.

Hv. þingmaður gerði hér fleira að umtalsefni og skammaði núverandi stjórnvöld sem eru í raun og veru ekkert annað en skilastjórn fyrir hið gjaldþrota Ísland sem Framsóknarflokkurinn skildi eftir sig. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra hefur gert þátt Framsóknarflokksins í því ágætlega skil og væri hægt að bæta einhverju við ef út í það færi.

Og vegna þess að ég sagði áðan að hv. þingmaður ætti ekki að kasta steinum úr glerhúsi þá talaði hann hér um flutningskostnað sem er sannarlega allt of hár og er alltaf að hækka vegna hækkandi olíuverðs (Gripið fram í.) og annars.

Virðulegi forseti. Ég kom í ríkisstjórn sumarið 2007 og við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sátum þar þegar tillögur voru lagðar fyrir okkur um að ákveðið hefði verið af þeirri ríkisstjórn sem þá var að fara frá, og vona ég að menn taki nú vel eftir — að sú ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem þá féll, sem betur fer, væri búin að ákveða að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn voru búnir að ákveða það. (Gripið fram í.) Við sátum á ríkisstjórnarfundi, virðulegi forseti, og spurðum: Bíddu, hvenær var tekin ákvörðun um að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð? (Gripið fram í.) Svarið var einfaldlega þetta: Það var ákveðið í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem var að fara frá að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Það var Framsóknarflokkurinn sem ætlaði að leggja það niður. En það vorum við, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, og kannski sérstaklega fyrir baráttu okkar samfylkingarmanna í þeirri ríkisstjórn með hæstv. iðnaðarráðherra og ráðherra byggðamála þar með, sem komum í veg fyrir að flutningsjöfnunarsjóður olíuvara yrði lagður niður, að það verk sem Framsóknarflokkurinn var búinn að undirbúa gengi eftir. Þá var skipuð nefnd, virðulegi forseti, af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, undir forustu Kristjáns Þórs Júlíussonar sem átti að útfæra aðferðir við flutningsjöfnuð og niðurgreiðslu. Það verk var komið vel á veg en því miður voru engar reglur til um hvernig ætti að framkvæma það. En síðan riðu ósköpin yfir og síðan hefur lítið annað verið gert en að vinna úr fullu borði af vondum kostum niðurskurðar og skattahækkana vegna þess efnahags- og bankahruns sem við höfum oft rætt hér.

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að þetta kæmi fram og tek undir með hæstv. utanríkisráðherra þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, vildi endilega taka þetta til umræðu hér, að það sé alveg sjálfsagt að gera það. En það verður ekki þannig að viðkomandi hv. þingmaður geti sett skítadreifarann á fullt og ausið hér svívirðingum yfir þá sem eru núna að moka flórinn án þess að tekið sé til varna og ýmislegt rifjað upp í ferilskrá Framsóknarflokksins eins og hér hefur verið gert um ýmislegt fleira.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi ýmis mál. Það má líka nefna mál eins og afnám bindiskyldu í bönkum. Ég minnist þess að Halldór Ásgrímsson, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, taldi það hina mestu vitleysu og bara dónaskap að menn væru að efast eitthvað um að það hefði ekki verið rétt ákvörðun að afnema hana. Og þá fór nú fyrst að flæða út úr bönkunum.

Virðulegi forseti. Mér er illa við að þurfa að takast á við það sem ég hef verið að gera hér að umtalsefni, að bera þetta saman. Ég held við ættum að leyfa okkur að fara frá því, það er ekki það sem beðið er eftir í landinu, það er beðið eftir aðgerðum til að byggja upp landið og við eigum að snúa okkur að því. Þess vegna segi ég að þessi tillaga er ein lítil tillaga í átt til þess að gefa möguleika á lækkun húshitunarkostnaðar í dreifbýli sem er mikilvægasta byggðamálið um þessar mundir, mjög mikilvægt atriði sem við þurfum að einhenda okkur í og finna út úr.

Ég bið hv. þm. Birki Jón Jónsson um að athuga aðeins ferilskrá Framsóknarflokksins áður en er byrjað er á því að ausa yfir okkur sem stöndum vaktina í dag og erum að ausa hið hripleka fley sem við tókum við.