143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

stjórnarfrumvörp um skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar.

[10:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að sjá hæstv. forsætisráðherra kominn til starfa aftur því að það eru mikilvæg verkefni sem þarf að ljúka á Íslandi.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvar er frumvarpið um afnám verðtryggingarinnar? Hvar er lyklafrumvarpið? Hvar eru þessi lykilfrumvörp sem lofað var þegar aðeins tíu fundadagar eru eftir af þessu þingi?

Sagt hefur verið að von sé á frumvarpi um skuldaleiðréttingar. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni en það segja margir gagnslaust án samhliða afnáms verðtryggingar, að 4% verðbólga muni éta upp allar 72 milljarða skuldaleiðréttingarnar. Þingmenn Framsóknarflokksins lögðu áherslu á það að afnema verðtryggingu á neytendalánum til framtíðar sem og að taka á gömlum verðtryggðum lánum, eins og þingmennirnir sögðu, því að fortíðarvandinn mætti ekki verða að framtíðarvanda. Í fjarveru forsætisráðherra hafa þingmenn Framsóknarflokksins gengið í þennan ræðustól og kallað eftir því að í næstu viku komi fram frumvarp um afnám verðtryggingar samhliða frumvarpinu um skuldaleiðréttingar.

Ég ítreka þetta ákall úr þingflokki Framsóknarflokksins til hæstv. forsætisráðherra og spyr hann: Hvað líður frumvarpi um afnám verðtryggingar? Hvað á að gera við gömlu verðtryggðu skuldirnar samhliða skuldaleiðréttingunum? Er það rétt að 4% verðbólga muni þurrka upp ávinninginn af 72 milljarða skuldaleiðréttingum? Og hvar er lyklafrumvarpið sem lofað var?