143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. n., Árna Þór Sigurðssyni, fyrir ræðuna og tek undir margt sem hann vék að. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir að minna okkur á stöðuna í Sýrlandi í þessari umræðu. Þar er um að ræða vandamál, hörmungarástand borgarastyrjaldar sem er af þeirri stærðargráðu að við höfum sem betur fer ekki séð mörg dæmi um slíkt á síðustu árum. Flóttamannavandinn er gríðarlegur. Þær hörmungar og það mannfall sem sýrlenska þjóðin hefur orðið fyrir er gríðarlegt. Það er því mikil ástæða fyrir okkur að tjá okkur um þetta mál og reyna að leggja okkar af mörkum á alþjóðavettvangi til að draga úr þeim hörmulegu afleiðingum sem styrjöldin þarna veldur þó að við ætlum okkur kannski ekki þá dul að stilla til friðar. Við getum að minnsta kosti lagt okkar af mörkum til að koma til móts við flóttamenn og aðra sem eiga um sárt að binda vegna þessara miklu og hörmulegu atburða.

Annað atriði sem ég ætlaði að nefna úr ræðu hv. þingmanns snertir norðurslóðamál. Þar erum við í þeirri stöðu að við erum, hygg ég, flest sammála um að á þeim vettvangi þurfum við að leggja mikið af mörkum. Norðurslóðasamstarfið er nokkuð sérstakt vegna samsetningar þeirra ríkja sem þar koma að. Ég vil spyrja hv. þingmann, m.a. í tilefni af þeirri umræðu sem fram fór hér fyrr í dag, hvort hann telji eða hafi áhyggjur af því, miðað við reynslu sína á þessu sviði, að framferði Rússa á alþjóðavettvangi núna (Forseti hringir.) geti með einhverjum hætti haft neikvæðar afleiðingar fyrir það samstarf sem er á vettvangi norðurslóða.