143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:49]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka Árna Þór Sigurðssyni, hv. 8. þm. Reykv. n., kærlega fyrir ræðuna. Mér finnst sérstaklega áhugavert að heyra hans sýn á Rússland, Úkraínu og Krímskaga vegna þess að ef ég man rétt, og ég held að minni mitt standi rétt til þess, hlaut hv. þingmaður menntun í Rússlandi á sínum tíma, er sérfræðingur um málefni þess lands og talar rússnesku.

Ég var líka ánægð með að hann skyldi minnast á Sýrland í ræðu sinni en mig langar þá að vitna í skýrslu utanríkisráðherra á bls. 56 þar sem talað er um Norður-Kóreu. Það er annað dæmi um mjög bágt, ef ekki hroðalegt, ástand og þetta eru alveg ný tíðindi frá rannsóknarnefnd. Höfundar skýrslunnar telja að í Norður-Kóreu séu framdir glæpir gegn mannkyni í þessum töluðu orðum og hafi verið í mörg ár, ef ekki áratugi, og ráðamenn þar í landi eigi að svara til saka fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Norður-Kórea er í raun eins og svarthol í alþjóðasamfélaginu í myndrænni merkingu þess orðs vegna þess að ef maður horfir á veraldarvefinn og yfir heiminn er svartamyrkur þar sem (Forseti hringir.) Norður-Kórea er en alls staðar annars staðar þar sem nútímavæðingin hefur haldið innreið sína er raflýsing. Það segir mikið til um (Forseti hringir.) ástandið og þess vegna vil ég kalla þetta svarthol. Ég vil heyra hvort þingmaðurinn tekur undir með mér að þarna (Forseti hringir.) sé líka mál sem við verðum að veita góða athygli.