143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Það eru alls konar rannsóknir og sjónarmið fræðimanna í gangi um það hvenær norðurskautið gæti opnast. Sumir tala um fá ár en aðrir um áratugi og allt þar á milli. Fræðimenn eru ekki á einu máli í því.

Kjarni málsins í því sem ég er að vekja máls á er að í þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem samþykkt var á árinu 2011 segir í 8. tölulið, með leyfi forseta:

„Að vinna með öllum ráðum gegn loftslagsbreytingum af manna völdum og áhrifum þeirra …“

Það felur í sér að við eigum að leggja okkar af mörkum og vera í fararbroddi þeirra sem vilja vinda ofan af loftslagsbreytingunum. Það getur ekki haft í för með sér annað en það að seinka til dæmis því að þessar siglingaleiðir yfir norðurpólinn opnist. Ég lít þannig á.

Ég minni á að ef svartsýnustu spár ganga eftir um hlýnun andrúmsloftsins og með bráðnun jökulsins á Grænlandi spá menn því að yfirborð sjávar hækki um sjö metra. Hvar ætla menn þá að hafa stórskipahöfnina? Ég velti því fyrir mér. (Gripið fram í: Uppi á fjöllum.) Grímsstöðum? [Hlátur í þingsal.]