144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

landbúnaðarmál.

[11:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna umræðu um háa tolla sem hv. þingmaður ræðir oft og kallar jafnvel ofurtolla þá er rétt að geta þess að Ísland flytur út m.a. skyr til Evrópusambandsins og fullnýtir þá tollkvóta vegna þess að mikil eftirspurn er eftir skyri í Evrópusambandinu. Allt sem Ísland getur flutt út umfram tollkvóta Evrópusambandsins er tolllagt með 300 kr. á kíló á skyri, en menn tala stundum eins og þetta sé séríslenskt fyrirbrigði. Það mundi nú kannski teljast nokkuð hátt að 50 kr. séu settar á hverja 170 gramma dós.

Varðandi búvörusamningana heilt yfir þá er eins og hv. þingmaður kom inn á sú samningalota að hefjast í samskiptum ríkisins við bændur og það hefur auðvitað verið gert áður og allir slíkir samningar sem menn gera eru alltaf háðir samþykktum fjárlögum á hverjum tíma. Það er auðvitað þannig að ef menn gera samninga verður ríkið að standa við þá. Ég býst við að hv. þingmaður sé sammála mér um að mjög mikilvægt sé að menn sjái nokkuð fram í tímann þegar fyrir liggur að talsverðir fjárfestingartímar eru fram undan í landbúnaði. Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt ný lög um dýravelferð og við höfum verið að setja reglugerðir á grundvelli þeirra, sem krefst þess að í mörgum tilvikum og í flestum búgreinum þurfi að fjárfesta verulega til þess að uppfylla þær reglugerðir. Ég býst við að þingmaðurinn sé sammála mér um að einhver samfella eigi að vera í þeim skoðunum sem löggjafarþingið setur fram og ef það setur bæði lög og síðan reglur um kröfur sé eðlilegt að atvinnugreinarnar geti staðið undir því. Þess vegna sé betra að horfa til lengri tíma en skemmri þegar menn (Forseti hringir.) þurfa að fara í umfangsmiklar fjárfestingar.