144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fá að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli um eflingu veikra byggða. Það er mikið áhyggjuefni að fólksflótti eigi sér stað á landsbyggðinni þar sem vinna við hæfi fæst ekki. Það er grundvöllur byggðar að til sé atvinna fyrir fólkið sem vill þar búa. Þess vegna langar mig að vekja athygli á því að jafnt aðgengi að internetinu fyrir fólkið í landinu er algjör grundvöllur ýmiss konar atvinnu, t.d. mundi ferðamannaiðnaðurinn varla þrífast ef ekki væri fyrir internetið. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig árangurinn hafi verið mældur, t.d. varðandi brothættar byggðir, og hvort aðgengi að internetinu og internetið sjálft hafi verið litið á sem kost í þessu máli.