146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[00:59]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Tvenns konar alvarlegir gallar einkenna ríkisfjármálaáætlunina. Framsetningin er ómarkviss allt of víða, ógegnsæ, og sums staðar svo rýr að undrum sætir. Og þegar rýnt er í þá einu tölulínu síðast í 34 málefnaliðum sem sýnir hækkun eða lækkun viðbótarframlags milli ára, blasir annars vegar við að ómögulegt er að skilja hvernig upphæðir milli ára eru ákvarðaðar og svo hins vegar að langoftast eru viðkomandi málaflokkar vanfjármagnaðir. Það á vieð um afar mikilvæga málefnaflokka eins og háskólarekstur, nýsköpun, rannsóknir og síðast en ekki síst umhverfismál. Það er útilokað að slá sig til riddara í loftslagsmálum með háleitum yfirlýsingum um mikilvægi þeirra og samþykkja þátt Íslands í Parísarsamkomulaginu án fullnægjandi fjármuna. Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar nær ekki máli metin út frá hagsmunum þorra fólks og móður jarðar og á ekki stuðning skilinn.