146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ef eitt jákvætt má segja um þessa fjármálaáætlun er það að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson getur þó þulið upp allar helstu athugasemdir fjármálaráðs á rétt rúmri mínútu. Ekki að það sé neinn gæðastimpill. Athugasemdirnar voru raunar mun fleiri og frá mun fleiri aðilum. Þessari áætlun hefur m.a. verið lýst af hæstv. fjármálaráðherra sem ófullkominni. Hún er ófullkomin. Hún stenst ekki lögin. Við eigum að hafna henni núna vegna þess að það er ekki hægt, ekki boðlegt að við samþykkjum fjármálaáætlun sem gengur gegn lögum um opinber fjármál. (BirgJ: Heyr, heyr.) Það er bara ekki ásættanlegt. Við eigum að hafna henni núna, við getum tekið málið aftur upp í haust og þá getum við gert það almennilega. Unnið það vel og skilað af okkur einhverju sem við getum verið stolt af. Kannski.