148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[20:56]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Málið kom mjög seint hér inn í þingið og það er líka sérstakt að okkur þingmönnum er ætlaður lítill tími til að setja okkur almennilega inn í málið. Þess vegna mun ég, sem og þingmenn Miðflokksins, ekki styðja afgreiðslu þessa máls.

Um daginn, þegar hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir málinu, sagði hún að litlu yrði breytt í þingsal þar sem um mál frá Evrópusambandinu væri að ræða. Það má segja að hún hafi haft nokkuð rétt fyrir sér. Eitt er að málið kemur seint, hitt er að flestir þingmenn hafa samþykkt að það fari í gegn að mestu umræðulaust. Ég hlýt því að spyrja: Er það þinginu til sóma?

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur haft málið hjá sér í 15 daga og hefur nefndin fengið til sín fjölda gesta. Eftir því sem umræðan um málið eykst vakna fleiri álitamál. Meira að segja hefur því verið velt upp hvort verið sé að brjóta á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og það segir allt sem segja þarf.

Umsagnarbeiðnir voru sendar út 30. maí, fyrir 13 dögum. Alls voru beiðnir sendar til 298 aðila og hafa borist um 50 umsagnir frá mismunandi hagsmunaaðilum, svo sem sveitarfélögum, ríkisstofnunum og hagsmunasamtökum flestra helstu atvinnuvega landsins. Þannig að umsagnirnar snerta allmarga.

Umsagnirnar eiga það allar sameiginlegt að benda á að nauðsynlegt sé að vanda til verka og gefa tíma til þess að fara vel og vandlega yfir þetta mikilvæga mál. Við erum með í höndunum gríðarlega stórt og viðamikið mál. Þess vegna er það furðulegt að ætla umsagnaraðilum svo skamman tíma. Það er ekki eins og þetta sé einfalt mál. Það er mikilvægt að gefa tíma þannig að fólk geti farið eins djúpt og þarf til að glöggva sig á því. Enda snúast umsagnirnar meðal annars um það hversu stuttur tími er gefinn ásamt gagnrýni á efnistök málsins alls.

Það er hægt að telja hér upp efnisatriði sem þyrfti að rýna betur í, svo sem eins og sektarákvæðin. Í sumum öðrum löndum eru þau ekki til staðar og sums staðar eru þau meira að segja lægri en þau verða hér. Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samorka, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök ferðaþjónustu, Samtök verslunar- og þjónustu hafa öll gagnrýnt að hafa ekki átt fulltrúa í innleiðingarferlinu sem er í sjálfu sér dálítið sérstakt þar sem verið er að innleiða þetta stóra mál sem snertir þessa aðila beint. Störf persónuverndarfulltrúa er aðeins eitt atriði af mörgum sem fyrirtæki þurfa að innleiða hjá sér og það eru fáir búnir að ráða, en einhverjir farnir að auglýsa. Það segir allt sem segja þarf.

Ég get haldið áfram, af nægu er að taka. Eftir standa fjölmörg álitaefni og fjölmörg lagatæknileg efni. Eitt vil ég þó segja að lokum, þ.e. að nefndasvið Alþingis á þakkir skilið fyrir sína vinnu, en það er með öllu óraunhæft að ætla að klára málið með þeim hætti sem hér er boðað.

Ég vel að láta staðar numið hér en vek athygli á því, eins og fyrr í máli mínu, að málið kom seint inn og okkur þingmönnum er á engan hátt gefinn nægur tími til að ræða það né heldur fá umsagnaraðilar alvörutækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er ekki hægt að fara áfram á þessu sem við oft segjum: „þetta reddast“. Mér finnst þetta þinginu ekki til sóma.