150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[17:02]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar frá nóvember 2017 kemur fram að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa í íslensku samfélagi. Var lagt til að gerð yrði sérstök úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Með vísan til sáttmálans skipaði ég starfshóp um kjör aldraðra í því skyni að fá betri yfirsýn yfir þær ólíku aðstæður sem eldri borgarar búa við. Hópnum var ætlað að koma með tillögur um hvernig bæta mætti kjör þeirra sem byggju við lökust kjörin.

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar Landssambands eldri borgara, fjármála- og efnahagsráðuneytis, forsætisráðuneytis og velferðarráðuneytis, nú félagsmálaráðuneytis. Þessi starfshópur lét vinna greiningu sem hópurinn byggði svo á við skilgreiningu á þeim hópi eldri borgara sem býr við lökust kjörin. Byggt á þessari greiningu var það álit starfshópsins að verst settu einstaklingar í hópi aldraðra væru þeir sem hefðu takmörkuð réttindi í almannatryggingum á Íslandi vegna fyrri búsetu erlendis, ættu lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum, lifðu eingöngu eða nánast eingöngu á bótum almannatrygginga eða byggju í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu eigin húsnæði. Starfshópurinn taldi líklegt að fleira en eitt af þessu ætti við um þann hluta hóps aldraðra og að sá hópur byggi að öllum líkindum við mjög mikla fátækt.

Þessi greining benti til þess að hinir tekjulægstu í hópi eldri borgara er búa á Íslandi væru einkum aldraðir sem hefðu ekki búið nægilega lengi á Íslandi fyrir 67 ára aldur til að ávinna sér fullnægjandi lífeyrisréttindi í almannatryggingakerfinu. Margir þeirra hafa einnig engar eða lágar lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðakerfinu þar sem þeir hafa ekki verið í vinnu eða eingöngu unnið stutt hér á landi. Í flestum tilfellum hafa þessir einstaklingar búið langdvölum erlendis en hafa samt sem áður ekki áunnið sér lífeyrisréttindi þar og hafa því margir litlar sem engar tekjur sér til framfærslu.

Grunnöryggisnet þess velferðarkerfis sem byggt hefur verið upp hér á landi felst í þjónustu og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og það verður áfram grunnöryggisnet íbúanna þó að frumvarp þetta verði að lögum.

Þeir sem geta ekki framfært sig af tekjum sínum eiga rétt á fjárhagsaðstoð sveitarfélags síns í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þegar heildartekjur þeirra eru undir því viðmiði sem sveitarfélagið hefur sett sér. Þessi hópur aldraðra sem býr hér á landi er þó talinn vera í brýnni þörf fyrir frekari stuðning. Hér er einkum um að ræða eldri innflytjendur og eldri íslenska ríkisborgara sem búsettir eru hér á landi en eiga lítil eða engin lífeyrisréttindi hérlendis. Það er talið nauðsynlegt að bæta kjör þessa hóps eldri borgara umfram þann stuðning sem felst í almennri fjárhagsaðstoð sveitarfélags og einnig að það verði gert á sérstakan hátt utan almannatryggingakerfisins.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu sem byggist á tillögu framangreinds starfshóps er lagt til að komið verði á sérstökum félagslegum viðbótarstuðningi fyrir aldraða einstaklinga sem búa hér á landi en eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi hér á landi eða erlendis og sem hafa litlar sem engar tekjur sér til framfærslu. Þessi hópur er talinn hafa sérstaka þörf fyrir varanlegan fjárhagslegan stuðning sér til framfærslu.

Frumvarpið tekur til einstaklinga sem eru 67 ára og eldri sem eru búsettir hér á landi og dvelja hér varanlega. Ef um erlenda ríkisborgara er að ræða er það skilyrði að þeir hafi fengið ótímabundið dvalarleyfi hér á landi en þó er lagt til að heimilt verði að víkja frá því skilyrði þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Frumvarpið tekur ekki til tilvika þar sem dvalarleyfi hefur verið veitt á grundvelli fjölskyldusameiningar og þegar sá sem óskað var sameiningar við hefur ábyrgst framfærslu viðkomandi. Þá er rétt að nefna að ekki er nægilegt að hafa hér skráð lögheimili til að geta fengið þennan stuðning heldur verða umsækjendur einnig að dvelja varanlega hér á landi. Dvelji viðkomandi erlendis eða hyggst dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða 90 daga á hverju 12 mánaða tímabili fellur greiðsla viðbótarstuðnings niður.

Verði frumvarp þetta að lögum geta aldraðir einstaklingar sem eru varanlega búsettir hér á landi en eiga lítil eða engin lífeyrisréttindi og hafa litlar sem engar tekjur sér til framfærslu fengið sérstakan félagslegan viðbótarstuðning frá ríkinu til viðbótar öllum öðrum tekjum þegar tekjurnar eru lægri en fjárhæð mánaðarlegs viðbótarstuðnings á hverjum tíma en þó verði 25.000 kr. almennt frítekjumark vegna annarra tekna en bóta almannatrygginga.

Lagt er til að hámarksfjárhæð mánaðarlegs viðbótarstuðnings geti numið allt að 90% af fjárhæð ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar. Búi umsækjandi einn er gert ráð fyrir að einnig verði greidd allt að 90% af fjárhæð heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þegar það á við. Hámarksfjárhæð til aldraðs einstaklings sem býr hér á landi en á hvorki lífeyrisréttindi hérlendis né erlendis og er algjörlega tekjulaus getur þannig numið allt að 231.110 kr. á mánuði og sé viðkomandi einhleypur getur fjárhæðin numið allt að 289.510 kr. á mánuði.

Tillögur þær sem byggt er á eru að norrænni fyrirmynd. Litið var til þeirra leiða sem gripið hefur verið til í nágrannalöndum, einkum í Noregi, til að styrkja framfærslu þessa hóps aldraðra sem og fenginnar reynslu af þeim úrræðum. Hér er þó að einhverju leyti gengið lengra, t.d. er ekki lagt til að tekjur maka verði teknar með í reikninginn þegar umsækjandi um viðbótarstuðning býr með maka eins og t.d. er gert í Noregi og á einnig við um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hér á landi.

Í ársbyrjun 2017 voru gerðar viðamiklar breytingar á ellilífeyri almannatrygginga þar sem bótaflokkar voru sameinaðar og allir útreikningar einfaldaðir. Mikil sátt var um þær breytingar og hafa þær orðið til þess að fjárhagur eldri borgara sem eiga rétt á bótum almannatrygginga hefur vænkast. Aftur á móti má segja að sá hópur sem þetta frumvarp nær til hafi ekki séð mikinn ávinning af þeim breytingum og er hér lagt til að úr því verði bætt með sérstökum stuðningi ríkisins við þessa einstaklinga. Er frumvarpið í samræmi við það sem þessi ríkisstjórn var ásátt um og hefur að leiðarljósi. Vil ég einnig geta þess sérstaklega að áfram verður unnið að því í félagsmálaráðuneytinu að leita leiða til að styrkja sérstaklega þá hópa í samfélaginu sem á mestum stuðningi þurfa að halda, hvort sem það er í gegnum bótakerfin okkar eða með öðrum hætti.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.