150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[17:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að mæla fyrir frumvarpi til laga um viðbótarstuðning við aldraða, búsetuskerðingarmálinu svokallaða. Ég fagna því algjörlega og tek heils hugar undir að þetta er frábært mál. Samt er einn hnökri á svona máli vegna þess að þarna eigum við við þá sem hafa það verst í þjóðfélaginu. Ég hef séð fólk fá greiðslur niður í 60.000–70.000 kr. og eiga að lifa af því á mánuði sem allir vita að gengur ekki upp, hvað þá ef það býr eitt.

Hæstv. félags- og barnamálaráðherra sagði í ræðu sinni áðan að um væri að ræða að hámarki rúmlega 230.000 kr. Ég set spurningarmerki við það. Við verðum og eigum að reikna upp á nýtt. Það er nauðsynlegt að fara að reikna út rétta framfærslu miðað við það viðmið hvað fólk þarf að hafa hér á landi til að lifa mannsæmandi lífi. Það segir sig sjálft að 230.000 kr. eru undir fátæktarmörkum þannig að það stenst enga skoðun. Það er eiginlega við sárafátæktarmörk, upphæðin er svo lág. Því miður verður þessi hópur sennilega enn í neðstu þrepum í fjárhæðum sér til framfærslu.

Ókei, þetta eru samt góð skref og ég vona heitt og innilega að við getum tekið á móti þessu máli. Ég reikna með að það fari í velferðarnefnd og ég mun skoða málið vel þar. Vonandi getum við í því samhengi samþykkt það en eins og ég segi er þetta bara fyrsta skref. Það segir sig sjálft að við getum ekki, eigum ekki og megum ekki samþykkja eitthvað sem við vitum að fólk lifir ekki á. Við vitum að fólk sem borgar leigu fyrir húsnæði og þarf mat og lyf lifir ekki á 230.000 kr. fyrir skatt. Það er útilokað og þess vegna eigum við að fara í það núna að laga það. Oft er þörf en nú er nauðsyn að finna rétta framfærslu þannig að allir geti lifað með reisn.