151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, auðvitað er sérþekking á tveimur stöðum ef frumvarpið verður að lögum, en sérþekkingin er á þremur stöðum núna; hjá Skattinum, hjá skattrannsóknarstjóra og hjá héraðssaksóknara, ákæruvaldinu. Hér er einfaldlega verið að gera eins og í svo mörgum öðrum málum, þ.e. að innan stjórnsýslunnar er viðurlagaheimild. Við sjáum þetta í samkeppnismálum, við sjáum þetta í fjármálaeftirliti, við sjáum þetta í ýmsum stofnunum. Ef málin eru ekki með þeim hætti að eðlilegt sé að ljúka þeim þar þá eru þau send til lögreglu og ákæruvalds. Það sama er verið að gera hér. Það er miklu einfaldara í mínum huga að gera það með þessum hætti og ekkert óljóst. Ríkisskattstjóri ákveður hvort málið sé á þeim tíma þess eðlis að hægt sé að ljúka því innan stjórnsýslunnar, innan Skattsins, eða hvort það þurfi að fara í ákærumeðferð. Það er hans að meta það. Þar er viðmiðið ekki endilega fjárhæðir heldur fyrst og fremst ásetningsstig eða saknæmisskilyrði sem slík. Flest brot eru þannig að það er rangt talið fram og ekki einu sinni ásetningur og þá er beitt álagi, það er bara gáleysi. Stundum er ekki neitt gert vegna þess að það eru eðlilegar skýringar á þessu. Hins vegar þegar mál eru þess eðlis að verið er að skipuleggja undanskot með ýmsu fifferíi þá getur það verið mjög saknæmt þó að fjárhæðirnar séu ekki háar. Þannig að ég held að það sé fyrst og fremst saknæmisskilyrðin sem skipta þarna máli og rétti aðilinn til að meta það er auðvitað ríkisskattstjóri. Við værum að fara langt aftur í tómt rugl í mínum huga ef ákæruvald ætti að færast til skattrannsóknarstjóra.