151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[17:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld, skattalega hvata fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla. Hér er verið að leggja til breytingar í þá veru að efla almannaheillastarf í gegnum skattalega hvata til þriðja geirans, sem við stundum köllum svo, sem starfar við og stuðlar að almannaheill, og jafnframt til einstaklinga og fyrirtækja sem leggja þeirri starfsemi lið með vinnu, gjöfum, fjárframlögum og öðrum slíkum stuðningi. Ég vil taka undir með hv. framsögumanni og þingmanni, Þórarni Inga Péturssyni, sem endaði á að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég fagna þessu máli alveg sérstaklega, eins og allir þingmenn, að ég held, sem birtist í samstöðu hv. efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli, að það sé komið alla leið hingað inn í þingsal í 2. umr. í þessari samstöðu, með þeim breytingum sem nefndin leggur til. Ég tel þessar breytingar til bóta og óhjákvæmilegt í raun að leggja það til miðað við þær umsagnir sem bárust við málið.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tók þetta mál til sín, getum við sagt, og skipaði starfshóp. Ég fullyrði að þetta hefði annars ekki náð alla leið þrátt fyrir góðan hug fjölmargra þingmanna og þingsins alls í gegnum tíðina um að taka utan um og efla sjálfboðaliðastarf í landinu. Þegar kemur að skilgreiningum og að formgera skattalega hvata flækist málið örlítið. Hv. þingmaður og framsögumaður, Þórarinn Ingi Pétursson, rakti ágætlega söguna og tildrög málsins. Það eru fjölmargir aðilar í samfélaginu sem vinna að almannaheill. Fjölmörg félagasamtök og sjálfboðaliðar á þeirra vegum vinna óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf og sinna verkefnum sem við næðum ella ekki að sinna, hvort heldur sem er skipulega eða þá af því afli sem við upplifum oft og tíðum, að ég tali ekki um fjárhagslega. Þetta frumvarp er ekki síst til að viðurkenna og styðja við þetta viðamikla starf á svo mörgum sviðum; á vettvangi íþrótta, tómstunda, æskulýðsstarfs, ekki síst barna og unglinga, góðgerðarfélaga, mannúðarsamtaka, hjálparsamtaka og fleiri, starfi sem við þurfum svo sannarlega á að halda sem samfélag og gætum ekki borið uppi ef það ætti allt saman að fara í gegnum sjóði ríkisins.

Mál af þessum toga hafa nokkrum sinnum verið lögð fram af þingmönnum vegna þess að hugurinn er góður að baki því og áhuginn er til staðar til að efla og styðja þetta starf. Það hefur kannski meira snúist um hversu víðtækt þetta ætti að vera og til hvaða tegunda skattaívilnana það ætti að ná. Að miklu leyti hafa málin í gegnum tíðina snúið að mannvirkjagerð og forvarnastarfi barna og unglinga og er sú saga ágætlega rekin í nefndaráliti með málinu.

Ég ætla aðeins að vísa í nefndarálit um málið þegar það fékk hér meðferð 2016. Mér finnst fróðlegt að rifja upp og varpa ljósi á hve mikilvægt það hefur verið fyrir málið í raun og veru að fara í gegnum þetta þroskaferli. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að þjónusta og vörusala íþrótta- og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi þeirra verði undanþegin virðisaukaskatti. Einnig er lagt til að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna tilgreinds kostnaðar við íþróttamannvirki á árinu 2016. Markmið frumvarpsins eru að styðja við starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga, einkum sjálfboðaliðastarf, og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Mál svipaðs efnis voru lögð fram á 143. og 144. löggjafarþingi (487. og 411. mál).

Síðustu ár hefur verið unnið að endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins.“

Á þessum tíma var skipaður stýrihópur sem fjalla átti um virðisaukaskattskerfið í heild sinni og lagði nefndin til á sínum tíma að þessar tillögur yrðu teknir til skoðunar. Það er skemmst frá því að segja að það dagaði uppi því að þetta er flókið, en þá eins og nú var einlægur ásetningur flutningsmanna að styðja við þetta öfluga sjálfboðaliðastarf sem mér verður tíðrætt um. Þegar ég segi flókið má kannski sjá það af þeim breytingartillögum sem lagðar eru til hér til aukins skýrleika og ég styð. Ég er búinn að skoða þetta út frá umsögnunum og samráði við hv. efnahags- og viðskiptanefndar við Skattinn og ráðuneytið. Þetta hefur lykilþýðingu þegar kemur að hinu skattalega umhverfi þriðja geirans, utanumhaldi, aðhaldi og eftirliti, sem var m.a. verkefni starfshópsins. Hann lagði jafnframt fram tillögur að breytingum á ýmsum sköttum sem rötuðu í það frumvarp sem við fjöllum um hér og lúta að erfðafjárskatti, fasteignaskatti, fjármagnstekjuskatti, stimpilgjaldi, virðisaukaskatti og stuðningi vegna mannvirkjagerðar og tekjuskatti. Málið er því orðið mun víðtækara en við höfum horft á í gegnum tíðina og má segja að hv. atvinnuveganefnd og hv. þm. Jón Gunnarsson hafi uppfært málið og komið því í þann búning sem við horfum til hér.

Forvarnastarf barna og unglinga einkennir margt af þessari starfsemi og er óumdeilt að það hefur gríðarlegt gildi. Ég fullyrti í upphafi ræðunnar að málið væri ekki í þessum búningi og komið alla þessa leið ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefði ekki fangað það sem hann gerði með skipun starfshóps. Ég vil nota tækifærið hér, hæstv. forseti, og draga fram hverjir voru í þessum starfshópi, af því að ég sé að þess er ekki getið í greinargerð með frumvarpinu. Starfshópurinn sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skipaði var skipaður Óla Birni Kárasyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur hagfræðingi, Berki Arnarsyni og Guðrúnu Ingu Sívertsen auk Helgu Jónsdóttur frá fjármálaráðuneytinu. Svo störfuðu með hópnum Hlynur Ingason og Ingibjörg Helga Helgadóttir, lögfræðingar í ráðuneytinu. Ég vil nota tækifærið hér og þakka þessum öfluga hópi fyrir samstarfið og vinnuna og þá skýrslu sem liggur til grundvallar frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Ég get sagt það hér að það var eiginlega ekki fyrr en við fórum að horfa til verkefnisins eins og það var lagt fram í skipunarbréfi að ég áttaði mig á því hversu viðamikið það væri í raun og veru og eins að ná utan um málið, þrátt fyrir góðan hug í gegnum tíðina. Eins og kemur fram í skipunarbréfinu, og ég ætla að rifja upp úr skýrslunni, var starfshópnum ætlað að leggja fram tillögur að breytingum og eftir atvikum lögum og reglugerðum sem gilda um skattlagningu á þeirri starfsemi sem fellur undir þriðja geirann eða telst til menningarstarfsemi. Þarna var því enn ein útvíkkun á málinu. Auk þess er skattalegt umhverfi flókið þegar kemur að því að útfæra málið. Að sama skapi var mikilvægt að gera einhvers konar samanburð á því hvernig þetta tíðkast í samanburðarlöndum okkar. Við lögðum í þó nokkra vinnu í þeim efnum, sem var mjög notadrjúgt, vil ég segja, við framhaldið og vinnslu málsins.

Þrátt fyrir að ýmis almannaheillastarfsemi hafi um langt skeið notið skattalegra ívilnana, skattfrelsis, undanþága, endurgreiðsluheimilda eða skattfrádráttar, má segja að hingað til hafi skattlagning almannaheillafélaga verið líkari skattlagningu opinberra stofnana fremur en aðila á markaði. Að einhverju marki, þar sem þessi félög sinna jú þjóðfélagslega brýnum og mikilvægum verkefnum fyrir velferðarsamfélagið, sem hið opinbera myndi ella þurfa að sinna, og m.a. með samanburði við aðrar þjóðir, var starfshópnum það ljóst að gera mátti betur. Við vorum eftirbátar og við höfum verið eftirbátar í þessum efnum. Við lögðum því á það áherslu að ekki væri einungis mikilvægt heldur forsenda þess að slíkar ívilnanir yrðu tækar, að rammi og skilgreining á hugtakinu almannaheill væri skýr og skráning hjá Skattinum grundvallarskilyrði. Ég sé að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt sig mjög vel fram um að taka utan um þennan þátt. Ég sé það líka af umsögnum við málið. Ég met það svo að þær breytingartillögur sem nefndin hefur gert séu mjög til bóta og til aukins skýrleika, enda hefur það algjöra lykilþýðingu þegar kemur að hinu skattalega umhverfi, utanumhaldinu, aðhaldinu og eftirlitinu. Það er ekki langt síðan við samþykktum lög um almannaheillastarfsemi yfir landamæri.

Starfshópurinn lagði fram tillögur að breytingum á ýmsum sköttum, eins og ég fór yfir hér áðan. Mér sýnist að þær tillögur hafi nánast allar með tölu ratað í frumvarpið. Síðan má auðvitað ræða hversu langt ætti að ganga. Það verður tíminn að leiða í ljós. Það var kannski helst það sem sneri að mannvirkjagerð og endurgreiðslu á virðisaukaskatti, hvernig búa mætti um slíkan stuðning. Við eigum auðvitað fyrirmyndir, ég nefni kvikmyndagerð, bókaútgáfu, þegar kemur að því að ganga út frá útlögðum kostnaði og hafa á því einhver mörk.

Í annan stað má segja að áhugi þingmanna á að auka hvata og stuðning um langa hríð hefur skapað væntingar. Ég held að við flest okkar höfum orðið vör við það. Það má kannski segja að sporgöngumenn í grasrót almannaheillafélaga sitji svolítið eftir vegna þess að það er langur tími liðinn frá því að við fórum að fjalla um þessi mál að einhverju marki með það í huga að ná einhverjum framgangi. En ég veit að nefndin ræddi viðmiðunarmörkin töluvert. Umsagnirnar bera það með sér að það er almenn ánægja með frumvarpið og ekki síst þann áfanga að sýna stuðning við þessa mikilvægu starfsemi í verki, efla og virða sjálfboðaliðastarfið í landinu. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru viðbrögð við ábendingum sem koma þarna fram og sneru að skilgreiningu og afmörkun á gildissviði og vann nefndin það mjög vel.

Hæstv. forseti. Ég gæti staðið hér mun lengur og í allan dag, en ég er ekki viss um að það sé mikil eftirspurn eftir því. En ég vil í lokin draga fram nokkrar athyglisverðar breytingar, til að mynda breytingu á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, en sú breyting mun koma í veg fyrir að töluverður hluti af fjármunum sjóða sem styðja við almannaheillastarf fari í skatt. Þá er hér að finna undanþágur góðgerðastarfsemi frá virðisaukaskatti. Endurgreiðsluákvæði, sem svo mikil áhersla hefur verið lögð á í gegnum tíðina, mun koma til góða við mannvirkjagerð og kannski ekki síst viðhald. Á mörgum sviðum er það stór hluti af starfsemi, en á öðrum sviðum mun minni hluti af starfsemi og ég sá það líka í athugasemdum við málið. En þetta mun skipta miklu máli fyrir hin ýmsu félög og samtök.

Þá er það frádráttur atvinnurekstraraðila af tekjuskatti. Við höfum séð mál þess efnis. Ég man eftir máli sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson lagði fram um að hækka það hlutfall og hér erum við að sjá tvöföldun á því hlutfalli, úr 0,75% í 1,5% vegna framlaga til almannaheilla og kolefnisjöfnunar. Þar erum við kannski farin að sjá þá framtíð sem við horfum til í stafrænu, grænu umhverfi. Þar er um mjög athyglisverða viðbót að ræða, myndi ég segja. Ég sé líka fyrir mér að það muni gefa mjög aukin tækifæri, sú breyting sem felst í að heimila einstaklingum að draga frá skatttekjum sínum einstaka fjárframlög til almannaheillastarfsemi, ekki þó meira en 350.000 kr. Það held ég að eigi eftir að gagnast mjög víða og verða mjög drjúg viðbót. Mér verður hugsað til hugmyndafræði bakvarðasveita í víðum skilningi í þeim efnum og er þekkt.

Ég ætla að fara að ljúka þessari ræðu minni en ég get bara viðurkennt að ég er mjög ánægður með þetta mál. Ég vil líka taka það fram að það er búið að fjármagna þetta mál, það er fjárheimild á bak við það upp á 2,1 milljarð þannig að það er býsna vel unnið og ígrundað. Á þeim tíma sem um ræðir hef ég auðvitað bæði lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur og verið meðflutningsmaður á fleiri málum sem tengjast þessu, en ég ætla að ítreka að málið hefði ekki komist á þennan stað nema fyrir tilstilli hæstv. ríkisstjórnar — það má finna um þetta texta í stjórnarsáttmála, kannski ekki alveg nákvæmlega eins og þetta er útfært eða jafn viðamikið. Ég fullyrði að ef hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefðu ekki tekið málið svona í fangið þá værum við ekki að klára það með þessum hætti. Ég fagna þessu mjög og vona innilega að þetta nýtist öllu almannaheillastarfi í landinu.

Ég vil síðan alveg í blálokin þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd góða vinnu og framsögumanni nefndarinnar fyrir að halda utan um málið á lokametrunum. Þetta er mér mjög gleðilegt og ég held að við fögnum því öll að málið sé komið á þennan stað.